Dómskerfið hefur brugðist konum í Afganistan sem beittar eru ofbeldi, samkvæmt nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem kom út í dag. Konur hafa verið myrtar með skelfilegum hætti í Afganistan undanfarið. Lög hafa verið sett til þess að verja þær gegn ofbeldi, en þeim er illa framfylgt.
Mikið hefur verið talað um réttindi kvenna í Afganistan frá því að stjórn talibana var steypt í innrásinni fyrir rúmum áratug og lög hafa verið samþykkt, en ofbeldi á hendur konum linnir ekki.
Skýrsla Sameinuðu þjóðanna kemur út í kjölfar fjölda ofbeldismála gegn afgönskum konum sem vakið hafa mikla athygli og óhug. Sagt var frá ástandinu í fréttaskýringu Karls Blöndal í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Þar kemur fram að hættulegt sé að vera kona í Afganistan og stundu mætti ætla að í landinu ætti sér stað stríð gegn konum.
Nauðganir, morð og limlestingar
Á laugardag fyrir viku skutu tveir menn á mótorhjóli unga konu til bana þegar hún kom út af heimili sínu á leið í skóla. Anisa, sem fjölmiðlar segja ýmist að hafi verið 18 eða 22 ára, lést þegar var verið að flytja hana á sjúkrahús. Ekki er ljóst hvers vegna hún var myrt, en líklegast þykir að harðlínumenn úr röðum talibana standi að baki, annaðhvort vegna þess að hún vann við heilsugæslustörf eða vegna þess að hún gekk í skóla.
Í liðinni viku voru tveir menn handteknir fyrir að skera 15 ára afganska stúlku á háls vegna þess að fjölskylda hennar hafnaði bónorði annars morðingjanna. Stúlkan var að bera vatn úr á að heimili sínu í þorpi í Kunduz-héraði þegar mennirnir sátu fyrir henni og myrtu hana.
Fyrir mánuði var 25 ára kona hálshöggvin í héraðinu Herat og í október var 30 kona limlest og myrt í sama héraði. Þá voru fjórir lögreglumenn fangelsaðir í nóvember fyrir að hafa hópnauðgað 16 ára gamalli stúlku í Kunduz héraði fyrr á árinu. Málið vakti athygli vegna þess að stúlkan tilkynnti árásina, en sjaldgæft er að þolendur kynferðisofbeldis í Afganistan segi frá.
Toppurinn á ísjakanum
BBC hefur eftir skýrslu Sameinuðu þjóðanna í dag að ofbeldisverk gegn konum séu sjaldan tilkynnt og megi þar kenna um félagslegum höftum, hömlum menningarinnar og ótta við fordæmingu og líflát. Þau fáu mál sem nái inn í kerfið eða fái athygli gegnum fjölmiðla vegna þess hve gróf þau eru eru aðeins toppurinn á ísjakanum, að sögn SÞ.
Á einu ári fóru 1.320 ofbeldismál fyrir dóm. Gagnrýnendur segja hins vegar refsingar vægar og það beri því vitni að stjórnvöldum sé ekki alvara í að verja rétt kvenna. Þrotlausar ráðstefnur um málið og slagorð hafi ekki bætt stöðu kvenna og ofbeldi á hendur konum færist í vöxt.
Dæmdar fyrir að flýja ofbeldið
Tilkynningum um ofbeldi gegn konum hefur þó fjölgað um tæp 30% á þessu ári. Það endurspeglar aukna meðvitund um alvöru slíkra glæpa, fremur en að þeim hafi fjölgað frá því sem áður var, samkvæmt skýrslunni.
Einhverjum framförum hefur þannig verið náð eftir að lög um ofbeldi gegn konum voru sett árið 2009, en samkvæmt skýrslunni er hlutfall þeirra mála sem leysast á grundvelli laganna enn mjög lágt. Oftar en ekki fari málin fyrir ættbálkadómstóla, s.k. „jirgas“, sem grafi undan dómskerfinu.
Þá er lögreglan í Afganistan sögð treg til að handtaka meinta gerendur, ekki síst þegar þeir tengist vopnuðum hópum eða áhrifamönnum í samfélaginu, samkvæmt skýrslunni. Í ofanálag eru konur í Afganistan enn sóttar til saka og dæmdar fyrir að flýja heimili sín, sem þær geri þó iðulega til að flýja ofbeldi.
Árlegu 16 daga átaki UN Women gegn kynbundnu ofbeldi lauk í gær.