Mætti einn og vann hug og hjörtu

Brovedani einn á leiknum.
Brovedani einn á leiknum.

Arrigo Brovedani var eini stuðningsmaður Udinese á knattspyrnuleik liðsins gegn heimaliðinu Sampdoria í Genoa þegar liðin mættust í Sería A knattspyrnudeildinni á Ítalíu um síðustu helgi.

Brovedani er víngerðarmaður og fékk kaffi frá starfsmanni Sampdoria auk þess sem honum var boðið upp á hressingu af áhagendum heimaliðsins eftir leik. Hann er landsþekktur á Ítalíu eftir leikinn.

Udinese er eitt af minni félögunum á Ítalíu og vanalega mæta einungis á milli 50-60 áhorfendur frá liðinu á útileiki.

„Ég bjóst við því að hitta í það minnsta fimm eða sex á leiknum,“ segir Brovedani í samtali við BBC.

„Þegar ég mætti á völlinn bauluðu stuðningsmenn heimaliðsins á mig og mér sárnaði það lítillega,“ segir hann.

„En í lok leiksins klöppuðu þeir fyrir mér og buðu mér upp á kaffi og máltíð. Stjórnendur liðsins gáfu mér svo keppnistreyju. Þeir óskuðu mér svo gleðilegra jóla,“ segir Brovedani.

Genoa er í fjögurra tíma akstursfjarlægð frá Friuli, þar sem Udinese hefur aðsetur en Brovedani var staddur í borginni á vinnuferð.

Udinese vann leikinn og tileinkuðu leikmenn liðsins Brovedani sigurinn. Honum hefur verið boðið að sitja í heiðursstúku á næsta heimaleik liðsins.

Hefur Brovedani jafnframt setið í viðtölum í útvarpi og sjónvarpi í vikunni og er orðinn þekkt andlit á Ítalíu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka