27 létust, þar af 18 börn, þegar maður hóf skotárás í skóla í Connecticut í Bandaríkjunum. Árásarmaðurinn lét lífið.
Skólinn er fyrir börn á aldrinum 5-10 ára, en um 600 nemendur stunda nám í skólanum.
Fréttir af því sem gerðist eru enn óljósar. Fréttamaður CBS News, sem er á staðnum, segir líklegt að þær tölur sem nefndar hafa verið um fjölda látinna eigi eftir að breytast.
NBC News segir að árásarmaðurinn sé um tvítugt. Hann hafi verið í svörtum klæðnaði og hafi verið með tvær skammbyssur. Annar maður, sem gekk inn í skólann um svipað leyti og skotmaðurinn, hefur verið handtekinn og er verið að rannsaka hvort hann tengist málinu.
Foreldri sem var í skólabyggingunni þegar maðurinn hóf árásina segist telja að hann hafi skotið yfir 100 skotum.
Talsmaður Hvíta hússins segir að Barack Obama hafi fengið upplýsingar um árásina og fylgist með rannsókn málsins.
Lögreglan hefur staðfest að árásarmaðurinn sé látinn og tvær skammbyssur hafi fundist á staðnum.
Skotárásir í skóla í Bandaríkjunum hafa verið nokkrar í gegnum árin. Mesta mannfall varð þegar byssumaður skaut 32 til bana í Virginia Tech háskólanum í Virginíu árið 2007. Ef það er rétt að 27 hafi fallið í árásinni á Sandy Hook grunnskólann í Connecticut í dag er þetta annað mesta mannfall í árásum af þessu tagi í Bandaríkjunum.