Fimm manns úr sömu fjölskyldu var í Bristol í Bretlandi í dag dæmd sek um þrælahald. Verður refsing þeirra kveðin upp á mánudag. Um er að ræða hjón, tvo syni þeirra og tengdason.
William Connors, 52 ára, eiginkona hans, Mary, 48 ára og synir þeirra, John, 29 ára og James, 20 ára og tengdasonur þeirra, Miles Connors 24 ára, voru fundin sek um að hafa þvingað fólk í þrælahald á tímabilinu apríl 2010 til mars 2011.
Fram kom við réttarhöldin að fórnarlömb fjölskyldunnar hafi oft verið útigangsfólk eða fíklar sem Connors-fjölskyldan þvingaði til að búa í niðurníddum hjólhýsum í hjólhýsagarði þar sem þeim var þrælað út. Sum fórnarlambanna höfðu verið í haldi fjölskyldunnar í tæpa tvo áratugi en þau fengu greidd smánarlaun ef þau fengu eitthvað greitt fyrir störf sín.
William Connors og Mary hafa verið gift í rúm þrjátíu ár og eiga þau sex börn saman. Hann er sagður hafa stýrt þrælahaldinu en við réttarhöldin kom fram að einhverjir þrælanna hafi verið í slæmu ásigkomulagi þegar þeim var bjargað, svo sem með brotin bein og vannærðir. Connors-fjölskyldan hikaði ekki við að beita mennina ofbeldi svo sem með því að slá þá með beltum og verkfærum, svo sem skóflum og hrífum. Voru þeir spúlaðir með köldu vatni í frosti og svo mætti lengi telja. „Þetta fyllti mennina ótta,“ sagði saksóknari við réttarhöldin og bætti við. „Ekki einungis þann sem varð fyrir ofbeldinu heldur einnig þá sem horfðu á - ef þú sérð einn félaga þinn barinn þá veistu á hverju þú átt von.“
Á BBC kemur fram að mennirnir hafa þurft að leita sér að mat í ruslafötum í verslunum og klósettaðstaðan var ruslafata eða skóglendið í kringum hjólhýsabyggðina.
Aftur á móti lifði Connors-fjölskyldan í vellystingum, hjólhýsi þeirra útbúin með öllu því nýjasta og risastórum flatskjáum. Eins fór fjölskyldan í frí til Tenerife og Mexíkó og ók um á Mercedes Benz og Rolls Royce.