Lögreglan hefur fundið lík á heimili mannsins sem réðist inn í skóla í Connecticut í dag og myrti þar fjölda manns. Lögregla hefur ekki viljað staðfesta hversu margir létust, en fréttastofur í Bandaríkjum segja að 27 hafi fallið.
NBC News segir að byssumaðurinn sé 24 ára gamall, Ryan Lanza, að nafni. Hann er sonur kennara sem starfar við skólann. Í fréttinni segir að hann hafi myrt föður sinn á heimili sínu í New Jersey. Hann hafi síðan ekið til Connecticut, þar sem móðir hans starfaði, og skotið hana til bana.
Mikil skelfing var í skólanum þegar maðurinn hóf að skjóta af byssu í skólastofu í skólanum. Þar eru um 600 nemendur við nám á aldrinum 5-10 ára.
Brenda Lebinski, sem á barn í skólanum, segir að skelfileg sjón hafi blasað við henni þegar hún kom að skólanum í morgun. „Það komu blóðug börn hlaupandi út úr skólanum. Ég veit ekki hvort þau höfðu orðið fyrir skoti, en þau voru blóðug.“
Lögreglan sagði á stuttum blaðamannafundi í dag, að hún hefði fengið tilkynningu um skotárás í skólanum um kl. 10:30 að staðartíma. Lögregla hefði lagt áherslu á að koma öllum út úr skólabyggingunni. Síðan hefðu lögreglumenn leitað í öllum skólanum.
Lögreglan vildi á þessu stigi ekki tjá sig um hversu margir hefðu látið lífið í árásinni, en staðfestu að árásarmaðurinn væri látinn.