Fimmtán fyrstu bekkingar, 6-7 ára gamlir, hnipruðu sig saman í læstu, ljóslausu baðherbergi á meðan skothríðin dundi fyrir utan dyrnar. Verið var að stráfella skólafélaga þeirra og kennara.
Þau voru óttaslegin en kennarinn þeirra hélt yfir þeim verndarhendi, þó að hann sjálfur væri hræddur um að verða næsta skotmark árásarmannsins.
Kennarinn Kaitlin Roig sem kennir við Sandy Hook-grunnskólann í Connecticut, átti erfitt með að halda aftur af tárunum í viðtali við ABC-fréttastofuna í dag.
Roig var fljót að hugsa er hún heyrði skot í skólahúsinu. Hún dreif börnin frá stórum glugga skólastofunnar og kom þeim inn á pínulítið baðherbergi í skyndi.
Hún dró kassa fyrir dyrnar og læsti þeim að innan.
Hún sagði börnunum að hafa hljótt. „Ég sagði þeim að hafa hljótt. Ég sagði þeim að hafa alveg hljótt,“ sagði Roig.
Þögnin inni á litla baðherberginu var áþreifanleg en fyrir utan var hverju skotinu á fætur öðru skotið, aðeins nokkra metra frá börnunum.
„Ég sagði þeim að vont fólk væri komið og að við yrðum að bíða eftir því að góða fólkið kæmi,“ sagði Roig.
Börnin grétu og vildu komast til foreldra sinna. Þau vildu komast heim og halda jólin, segir Roig.
Roig reyndi að hughreysta þau börn sem grétu og bað þau um að reyna að brosa í gegnum tárin.
Roig sagðist hafa óttast það versta. „Ég hugsaði: Við erum næst.“
Hún sagði börnunum að hún elskaði þau. „Ég vildi að þau vissu að einhver elskaði þau og að það yrði það síðasta sem þau heyrðu.“
Allt í einu hætti skothríðin og lögreglan bankaði á dyrnar og bað þau að koma út. Roig var þó ekki viss um að þetta væri lögreglan og neitaði að opna dyrnar þar til lögreglumennirnir renndu merkjum sínum undir hurðina.