Nancy Lanza, móðir Adams Lanza, kenndi syni sínum að skjóta af byssu. Hún var skráð fyrir byssunum sem hann notaði við morðin í Sandy Hook-skólanum.
„Hún sagði að hún færi oft með sonum sínum til að skjóta af byssu,“ hefur Reuters-fréttastofan eftir Dan Holmes, sem þekkti til fjölskyldunnar.
Holmes segir að Nancy Lanza hafi haft mikinn áhuga á byssum og átt byssur. Hann segir að hún hafi eitt sinn sýnt sér hríðskotariffil sem hún var þá búin að eignast. Hún hafi verið afar ánægð með þetta vopn.
Adam Lanza, sem var tvítugur, myrti móður sína á heimili hennar. Hann tók síðan bíl hennar og ók til Sandy Hook-skólans og ruddist inn í skólann og myrti þar 20 börn og sex starfsmenn skólans. Hann framdi síðan sjálfsvíg í skólanum.
Byssueign er mjög almenn í Bandaríkjunum. Mjög algengt er að venjulegt fólk eigi byssur og geymi þær á heimili sínu. Margir vilja setja í lög frekari skilyrði fyrir því að fólk megi eiga byssur, en það er hörð andstaða við slíka lagasetningu. Ólíklegt þykir að samstaða náist um að sett verði alríkislög sem takmarki réttindi almennings til að eiga byssur.