Líklegt er talið að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) muni sýna argentínskum stjórnvöldum „rauða spjaldið“ en frestur sem veittur var til að laga opinberar hagtölur rennur út í dag. Enn er þó óvíst hvaða refsiaðgerðum landið verður beitt vegna þessa.
Christine Lagarde, framkvæmdastjóri AGS, notaði þetta orðalag, að Argentína fengi rauða spjaldið, eftir að stjórn AGS veitti argentínskum stjórnvöldum þriggja mánaða frest í september síðastliðnum til að bæta úr áreiðanleika opinberra hagtala, sér í lagi hvað verðbólgu varðar og þjóðarframleiðslu, en þær eru taldar afar hæpnar.
Í dag rennur fresturinn út og skilar Lagarde skýrslu til stjórnar AGS. Talið er fullvíst að Argentína hafi ekki bætt úr sínum málum og eigi því yfir höfði sér að vera vikið úr AGS. Það getur haft í för með sér margvíslegar refsiaðgerðir, s.s. að landið verði útilokað úr G20, samtökum 20 helstu iðnríkja heims.
Fari svo að gripið verði til refsingar er það í fyrsta sinn sem gjaldeyrissjóðurinn beitir þeim úrræðum sem hann hefur.