Fjölmargir Spánverjar hafa þurft að herða sultarólina undanfarið ár og jólin eru þar engin undantekning á sama tíma og atvinnuleysi hefur aukist og verðlag hækkað.
Kreppan hefur varað í fimm ár á Spáni og hafa aldrei verið jafn margir án atvinnu og nú er en fjórðungur þjóðarinnar er án vinnu. Þann 1. september sl. var virðisaukaskattur hækkaður og þýddi það hækkun á matvælaverði á sama tíma og atvinnuleysisbætur hafa lækkað.
Þeir sem eru í vinnu þurfa að sætta sig við það að lítið er um jólabónusa í ár enda berjast mörg fyrirtæki í bökkum og eru ekki aflögufær fyrir þessi jólin.
En það eru ekki bara kaupmenn sem finna fyrir minni kaupmætti fólks á Spáni því útlit er fyrir að færri spili í jólalottóinu í ár en vanalega, því ýmsir hafa hreinlega ekki ráð á því að treysta á lukkuna í þessum efnum í ár.