Nær 200 hafa dáið úr kulda

Nær 200 manns hafa dáið af völdum vetrarkulda í Rússlandi og Austur-Evrópu og spáð er áframhaldandi fimbulfrosti fram að jólum.

Í Rússlandi hafa að minnsta kosti 56 manns dáið úr kulda síðustu vikuna og yfir 370 hafa verið fluttir á sjúkrahús vegna ofkælingar, að sögn rússnesku fréttastofunnar Ria-Novosti.

Í Moskvu hefur frostið verið um 20 stig og allt að 50 stig í Síberíu. Spáð er allt að 31 stigs frosti vestan Úralfjalla á sunnudag en horfur eru á að frostið fari síðan að minnka.

Margt heimilislaust fólk hefur dáið

Mikil snjókoma hefur verið víða í Úkraínu og yfirvöld sögðu í gær að minnst 83 hefðu dáið af völdum kuldans. Þar af fundust 57 látnir á götunum. Algengt er að heimilislaust fólk deyi úr kulda í Úkraínu.

Nær 530 Úkraínumenn til viðbótar hafa verið fluttir á sjúkrahús vegna ofkælingar.

Allt að 23 stiga frost hefur verið í Úkraínu síðustu daga. Fannfergið hefur raskað samgöngum víða í landinu og hermenn hafa aðstoðað við að ryðja snjó af vegum. Nær hundrað bæir og þorp hafa verið án rafmagns í nokkra daga.

Stjórnvöld í Úkraínu hafa verið gagnrýnd fyrir að bregðast of seint við vetrarkuldunum og koma heimilislausu fólki til hjálpar. Um hundrað manns frusu í hel í Úkraínu síðasta vetur.

Tugir hafa dáið í Póllandi

Yfirvöld í Póllandi sögðu í gær að 49 Pólverjar hefðu dáið úr kulda í mánuðinum. Flestir þeirra voru heimilislausir. Frostið þar hefur verið um tíu stig síðustu daga.

Að minnsta kosti sex manns hafa dáið úr kulda í Litháen síðustu vikur. Mikið frost hefur einnig verið í Lettlandi og spáð er metfrosti á sunnudag, eða 28 stiga frosti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert