Tímamótum maya fagnað en heimurinn fórst ekki

Þúsundir manna söfnuðust saman í gær við mikilvægar menningarminjar maya-indíána í Mexíkó og Mið-Ameríku og nokkrum öðrum stöðum í heiminum – sumir þeirra til að bíða eftir heimsendi.

Aðrir gerðu grín að dómsdagsspámönnum. „Ef þú ert í neðanjarðarbyrgi með lífstíðarbirgðir af bökuðum baunum hlýtur þér að líða eins og fífli núna,“ tísti einn af notendum samskiptavefjarins Twitter. Á hverri mínútu voru birtir tugir tísta á Twitter þar sem gert var grín að dómsdagsspám sem ekki rættust.

Margar dómsdagsspánna tengdust fornu tímatali maya-indíána, svonefndri löngu talningu, sem lauk í gær. Sérfræðingar í tímatalinu sögðu ekkert benda til þess að mayar hefðu talið að heimurinn myndi farast. Tímatal maya væri endalaust og nýtt tímabil hæfist þegar löngu talningu lyki.

Margir vonsviknir fréttamenn

Dómsdagsspámenn höfðu meðal annars spáð að því franska þorpið Bugarach myndi lifa af heimsendi og geimverur myndu koma á geimskipum út úr tindi nálægs fjalls til að bjarga fólki. Lögreglan lokaði vegum að bænum og gönguleiðum að fjallinu þar sem óttast var að fólk myndi flykkjast þangað.

Svo fór að fáir reyndu að komast til bæjarins. Tugir fréttamanna voru á svæðinu og urðu fyrir miklum vonbrigðum því þeir höfðu fáa til að ræða við. Dómsdagsspámenn höfðu einnig sagt að tyrkneska þorpið Sirince myndi ekki farast vegna „jákvæðrar orku“ í þorpinu. Samkvæmt kristnum helgisögum steig María mey upp til himna á staðnum.

Fólk sem trúði á dómsdagsspána flykktist til Sirince og einnig að fjalli nokkru í Serbíu. Sagt var að fjallið sendi frá sér óvenjulegar rafsegulbylgjur sem myndu verja fólk.

Þúsundir manna höfðu samband við Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, til að spyrja hvað hægt væri að gera ef dómsdagsspáin rættist. Stofnunin setti upp sérstaka vefsíðu þar sem dómsdagsspáin var hrakin og fólk fullvissað um að heimurinn myndi ekki farast.

Margir þeirra sem gerðu grín að dómsdagsspánni notuðu tækifærið til að sletta úr klaufunum með dómsdagsveislum víða um heim.

Milljónir erlendra ferðamanna voru einnig í Mexíkó og Mið-Ameríkulöndum þar sem maya-indíánar réðu ríkjum á blómaskeiði þeirra á árunum 250-900 eftir Krist. Tímamótanna var minnst með flugeldasýningum, tónleikum og fleiri viðburðum. Margir litu á tímamótin sem tækifæri til að vekja athygli á fornri siðmenningu maya en samtök frumbyggja í Mexíkó og Mið-Ameríku sökuðu fyrirtæki og stjórnvöld um að hafa hagnast á rangri túlkun á tímatali maya, m.a. í bandarískum kvikmyndum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert