Í haldi sjóræningja í tæp þrjú ár

AFP

Búið er að koma 22 gíslum til bjargar sem sómalískir sjóræningjar rændu fyrir tæpum þremur árum. Þetta segja yfirvöld í Puntlandi, sem er hálfsjálfstætt hérað með heimastjórn í Sómalíu.

Þau segja að aðgerðir sjóhersins við að frelsa fólkið hafi hafist fyrir hálfum mánuði. Fram kemur í yfirlýsingu að gíslanir hafi þurft að þola mikið, m.a. pyntingar og glímt við veikindi.

Aukin öryggisgæsla um borð í skipum og eftirlit á hafsvæðinu við Sómalíu hefur leitt til þess að árásir sjóræningja á undanförnum árum hafa í auknum mæli reynst árangurslausar.

Fréttaskýrandi BBC segir að það gerist ekki oft að sómalískar hersveitir skipuleggi aðgerðir gegn sjóræningjum með þessu hætti.

Sjóræningjarnir náðu MV Iceberg One á sitt vald undan strönd Jemens árið 2009, en skipið sigldi undir fána Panama. Skipið var staðsett skammt frá þorpinu Gara'ad við strönd Mudug-héraðs þegar hermennirnir létu til skarar skríða 10. desember.

Í yfirlýsingunni segir, að hermennirnir hafi barist við sjóræningjana í tvær vikur áður en þeim tókst að koma öllum 22 gíslunum örugglega til bjargar.

Þá voru nokkrir ræningjar felldir eftir að herinn stöðvaði bát sem var að flytja vopn og aðrar birgðir í skipið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert