Nú er ljóst að tveir slökkviliðsmenn eru látnir og tveir slasaðir eftir að maður skaut á þá er þeir komu á vettvang eldsvoða í bænum Webster í New York-ríki. Lögreglan segir ljóst að um umsátur var að ræða. Árásin átti sér stað um kl. 6 síðdegis að staðartíma.
„Þegar slökkviliðsmennirnir komu á vettvang var strax byrjað að skjóta á þá af einum eða fleiri árásarmönnum,“ segir Gerald Pickering, lögreglustjóri í Webster.
„Fjórir slökkviliðsmenn urðu fyrir skotum. Tveir eru látnir og tveir voru fluttir á sjúkrahús.“
Pickering sagði síðar að það væri talið að einn maður hefði verið að verki en ekki fleiri eins og jafnvel hafi verið talið í fyrstu. Sá fannst látinn á staðnum með skotsár.
Sérsveitarmenn voru fengnir til að koma íbúum burt af svæðinu en eldurinn læsti sig í að minnsta kosti þrjú hús. Enn er unnið að því að ráða niðurlögum hans.
Á síðustu þremur áratugum hefur fjöldi skotárása í Bandaríkjunum margfaldast.