Byssueign enn sett á oddinn

Máttur NRA er mikill og stjórnmálamenn eru margir hræddir við …
Máttur NRA er mikill og stjórnmálamenn eru margir hræddir við ítök samtakanna. AFP

Blóðbaðið í bænum Newtown í Connecticut 14. desember hefur enn einu sinni hrundið af stað umræðu um að banna sjálfvirk skotvopn í Bandaríkjunum. Þá réðist vopnaður maður inn í grunnskóla í bænum og myrti 20 sex og sjö ára börn og sex starfsmenn skólans, sem voru að reyna að verja börnin.

Barack Obama lýsti yfir því á miðvikudag í liðinni viku að hann hygðist setja málið á oddinn á öðru kjörtímabili sínu og hét því að leggja víðtækar tillögur um bann við eign á skotvopnum fram á þingi eigi síðar en í janúar. Hann sagðist jafnframt myndu beita öllu því valdi, sem embætti forseta fylgdi, til að knýja fram breytingar á byssulöggjöfinni „til að koma í veg fyrir fleiri harmleiki af þessu tagi“.

Obama á erfiða baráttu framundan. Félag bandaríska byssueigenda, NRA, hefur jafnan verið öflugur andstæðingur hvers kyns banns við eign skotvopna og mun beita sér af alefli gegn Obama.

Á föstudag hélt NRA blaðamannafund þar sem varaforseti samtakanna, Wayne LaPierre, hvatti til þess að Bandaríkjaþing hlutaðist til þess að vopnaðir lögregluþjónar eða öryggisverðir yrðu látnir standa vörð við alla skóla í landinu.

„Það eina sem stoppar illmenni með byssu er góðmenni með byssu,“ sagði LaPierre á blaðamannafundinum og fullyrti að byssueign væri ekki vandamálið, heldur skortur á öryggisgæslu og kvikmyndir frá Hollywood og tölvuleikir, sem væru óður til og ýttu undir ofbeldi.

Daginn áður höfðu þekktir leikarar og tónlistarmenn, þar á meðal Jeremy Renner, Gwyneth Paltrow og Beyonce, kynnt myndband þar sem krafist er aðgerða í skotvopnamálum eftir morðin í Sandy Hook-grunnsólanum í Newtown. Í myndbandinu er farið fram á að sett verði bann við hríðskotabyssum og gert skylt skoða að sakaskrá þeirra, sem hyggjast kaupa sér byssu „fyrir börnin í Sandy Hook“, heyrist rödd söngkonunnar Beyonce segja.

Máttur NRA er mikill og stjórnmálamenn eru margir hræddir við ítök samtakanna. Stefna samtakanna samræmist hugmyndafræði repúblikana mun frekar en demókrata. Engu að síður hefur demókrataflokkurinn komið sér hjá því að taka afstöðu með því að koma böndum á byssueign og víða í Bandaríkjunum líta frambjóðendur demókrata svo á að stuðningur við slíka löggjöf jafngildi pólitísku sjálfsmorði.

Bréf til dómsmálaráðherra

Obama getur því ekki verið viss um að eiga stuðning flokkssystkina sinna á þingi. Til marks um það er að þegar Eric Holder dómsmálaráðherra lýsti yfir því 2009 þegar meintir félagar úr Sinaloa-glæpasamtökunum voru handteknir að hann vildi gera nokkrar breytingar í sambandi við skotvopn, þar á meðal að endurvekja bann við sölu sjálfvirkra byssa, skrifuðu 65 fulltrúadeildarþingmenn demókrata honum bréf. „Við erum harðir stuðningsmenn annarrar viðbótargreinar stjórnarskrárinnar og það veldur okkur því þungum áhyggjum að stjórnin hyggist þrýsta á um að bannið frá 1994 við „sjálfvirkum skotvopnum“ og [stórum hleðslum margra umferða skothylkja] verði endurvakið,“ skrifuðu þeir og kváðust myndu leggjast alfarið gegn slíkum tilraunum á þingi.

Andrúmsloftið að breytast?

Nú eru þó ýmsar vísbendingar um að andrúmsloftið á þinginu sé að breytast. Fjöldi demókrata, þar á meðal þingmenn frá íhaldssömum ríkjum, hafa nú sagt að taka verði málið upp á þingi á næsta ári. Sérstaklega var til þess tekið að Harry Reid, öldungadeildarþingmaður frá Nevada og leiðtogi meirihluta demókrata, sagði í upphafi liðinnar viku að hann væri opinn fyrir nýjum takmörkunum við byssueign. Reid hefur verið harður stuðningsmaður réttarins til að eiga skotvopn.

Andrúmsloftið kann því að vera að breytast í þeirra röðum, en til þess að koma breytingum í gegnum þingið þarf líka stuðning úr röðum repúblikana þar sem fyrirstaðan er mikil. Það verður því þrautin þyngri, þótt reiði almennings vegi upp á móti þrýstingi hagsmunasamtakanna NRA.

Bannið frá 1994 til 2004

Bannið frá 1994 átti sér nokkurn aðdraganda. Snemma árs 1989 hóf maður vopnaður sjálfvirkum riffli skothríð á börn á skólalóð. Fimm börn á aldrinum sex til níu ára létu lífið og 29 særðust. Þegar hófst umræða um að banna sjálfvirk skotvopn. NRA þvældist fyrir við hvert fótmál og stjórnmálamenn deildu. Það tók fimm ár að koma banni við sjálfvirkum skotvopnum um öll Bandaríkin í gegnum þingið. Til að það tækist voru gerðar ýmsar málamiðlanir. Þar á meðal tókst andstæðingum bannsins að koma inn sólarlagsákvæði seint í ferlinu þess efnis að bannið stæði aðeins til 2004.

Könnun, sem Háskóli Pennsylvaníu gerði á banninu, sem einnig tók til hleðslna með miklum fjölda skothylkja, sýndi að það hafði haft takmörkuð áhrif á glæpi þar sem skotvopn komu við sögu. Þeir, sem gerðu rannsóknina, sögðu að undantekningarnar hefðu verið of margar. Bannið tók ekki til sjálfvirkra vopna og byssna með stórum hleðslum framleiddra fyrir 1994 sem þýddi að 1,5 milljónir sjálfvirkra skotvopna voru áfram í umferð. Þá þurfti að skilgreina sjálfvirk vopn og byssuframleiðendur fundu leiðir til að gera vopnin þannig úr garði að þau féllu ekki undir skilgreininguna þótt í raun væru þau sjálfvirk.

Barack Obama lýsti því yfir að hann hygðist setja byssueign …
Barack Obama lýsti því yfir að hann hygðist setja byssueign á oddinn. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert