Nick Clegg, varaforsætisráðherra Bretlands, varar David Cameron, forsætisráðherra, við að binda enda á áratugalanga þátttöku og forystu Breta í Evrópusamstarfi og segir fyrirætlanir um þjóðaratkvæðagreiðslu um sambandið við ESB áður en evruvandinn er leystur ótímabærar. Þetta segir Clegg í viðtali við breska blaðið The Guardian.
Harðlínumenn í Íhaldsflokknum og víðar hafa undanfarið talað fyrir því að áframhaldandi aðild Bretlands að Evrópusambandinu verði borin undir landsmenn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Clegg varar við því en segist þó ekki óttast niðurstöðu slíkrar atkvæðagreiðslu.
„Ég get ekki skilið fyrir mitt litla líf hver spurningin er sem við eigum að leggja fyrir bresku þjóðina því að við vitum ekki ennþá við hverju við erum að bregðast varðandi frekari samruna evrusvæðisins,“ segir Clegg meðal annars í viðtalinu.
Hinn 1. janúar verða 40 ár liðin frá því að Bretar gengu í Evrópusambandið.