François Hollande, forseti Frakklands, hefur fyrirskipað að öll öryggisgæsla skuli verða hert við sendiráð Frakklands í Mið-Afríkulýðveldinu eftir að mótmælendur gerðu árás á það. Hermenn gæta nú sendiráðsins.
Hollande skipaði varnarmálaráðherra landsins um að tryggja jafnframt öryggi franskra ríkisborgara í landinu.
Mótmælendur köstuðu grjóti í sendiráðið, sem er staðsett í höfuðborginni Bangui. Þeir rifu jafnframt niður þjóðfána Frakklands. Mótmælendurnir krefjast þess að frönsk stjórnvöld aðstoði við að berja niður uppreisn í norðurhluta landsins.
Frakkar eru fyrrverandi nýlenduherrar í Mið-Afríkulýðveldinu. Þar eru nú um 200 hermenn. Ríkisstjórn Mið-Afríkulýðveldisins hefur beðið frönsk yfirvöld um að grípa til aðgerða gegn uppreisnarmönum sem hafa náð nokkrum þorpum í norðurhlutanum á sitt vald.
Mótmælendurnir segja að Frakkar hafi sagt skilið við sig. Í Bangui var einnig staðið fyrir mótmælum á fleiri stöðum, m.a. fyrir utan skrifstofur flugfélagsins Air France og sendiráð Bandaríkjanna.