Kínversk yfirvöld tóku í dag lengstu háhraða-járnbrautarleið heims í notkun. Um er að ræða nýjasta afrekið í gríðarflóknu og ört stækkandi lestarsamgöngukerfi Kínverja.
Leiðin spannar alls 2.298 kílómetra og liggur milli Beijing og Guangzhou. Áður tók lestarferð milli borganna tveggja 22 klukkustundir en með tilkomu nýju leiðarinnar tekur hún aðeins 8 klukkustundir.
Brottför og komu fyrstu lestarinnar sem fór leiðina var sjónvarpað í ríkissjónvarpi Kínverja, en lestin lagði af stað klukkan 9 um morgun og kom til Guagzhou klukkan 5 sama dag. Auk þess voru sýnd brot úr ferð lestarinnar yfir daginn, en hún var full af forvitnum ferðalöngum sem flestir tóku myndir í gríð og erg af þessum merkilega viðburði, auk þess sem þeir festu á filmu fallegt sveitaumhverfið sem einkennir leið lestarinnar.
Lestin ferðast að meðaltali á 300 kílómetra hraða á klukkustund, en hún nemur staðar á fjórum viðkomustöðum á leið sinni til Guangzhou.
Samkvæmt því sem fram kemur á vef fréttastofunnar AFP varð 26. desember fyrir valinu sem opnunardagur leiðarinnar til að minnast fæðingar kínverska leiðtogans Maos Zedongs, sem fæddist á þessum degi árið 1893.
Miði aðra leið með háhraðalestinni kostar um 865 yuan, eða um 18.000 krónur í almennu farrými, en um 2.727 yuan eða 55.000 krónur fyrir sæti í viðskiptafarrými.
Fyrir opnunina upphófst verðstríð milli kínverskra flugfélaga sem kepptust við að undirbjóða hvert annað til að hafa betur í samkeppni við lestarleiðina.