Skattayfirvöld í Þýskalandi hafa lagt til að þarlendir flutningabílstjórar skrái hjá sér hversu oft þeir fari á klósettið og hversu lengi hver klósettferð vari til þess að auðveldara verði að skera úr um það hversu stór hluti af tekjum þeirra skuli vera undanþeginn skatti.
Fram kemur á fréttavefnum Thelocal.de að til þessa hafi verið gert ráð fyrir því að þetta ætti við um sem nemur fimm evrum af launum flutningabílstjóra á dag en skattayfirvöldin hafa nú lýst því yfir að ekki sé um nægjanlega nákvæma útreikninga að ræða í þeim efnum. Þá verði bílstjórarnir einnig að geyma kvittanir vegna bílstæða sem þeir leggja á á meðan þeir hvíla sig.
Skattalögfræðingar í Þýskalandi hafa gagnrýnt þessi tilmæli og sagt að slíkt væri fáránlegt og hefði í för með sér mikinn kostnað fyrir flutningabílstjórana.