17 ára gömul indversk stúlka sem varð fyrir hópnauðgun hefur svipt sig lífi í kjölfar þrýstings sem hún varð fyrir af hálfu lögreglu um að láta málið niður falla og ganga í hjónaband með einum árásarmannanna. Sífellt fleiri hryllingssögur heyrast nú af nauðgunum á Indlandi.
Fjöldi frétta hefur borist af nauðgunum og stöðugri kynferðisáreitni gegn indverskum konum. Ástæðan virðist ekki vera sú að brotum hafi fjölgað heldur láti konur þar í landi frekar í sér heyra en áður og fleiri dómar hafa fallið vegna slíkra mála. Engu að síður eru yfirvöld í Indlandi harðlega gagnrýnd fyrir sinnuleysi varðandi kynferðisofbeldi gegn konum, þar á meðal lögreglan.
Neituðu að skrá nauðgunarkæruna
Gríðarleg reiði blossaði upp í landinu vegna hópnauðgunar um borð í strætisvagni í Nýju-Delhi og hefur lögreglan verið harðlega gagnrýnd fyrir slæleg viðbrögð. Það var því ekki til að lægja öldurnar þegar systir unglingsstúlku í ríkinu Punjab steig fram í dag og sagði stúlkuna hafa svipt sig lífi eftir hópnauðgun vegna viðbragða sem hún fékk þegar hún leitaði til lögreglu.
Hópnauðgunin átti sér stað meðan á Diwali-hátíðinni stóð hinn 13. nóvember. Stúlkan er sögð hafa ítrekað reynt að fá málið tekið upp hjá lögreglu en hún hafi alls staðar verið hundsuð og lögregla neitað að rannsaka nauðgunina. Í gærkvöldi fannst hún látin eftir að hafa gleypt eitur.
Systir stúlkunnar segir að lögreglan hafi beitt hana þrýstingi um að láta málið niður falla en ná heldur sáttum við árásarmennina og giftast jafnvel einum þeirra. Einum lögreglumanni hefur verið vikið frá störfum fyrir að hafa neitað að skrá málið þegar stúlkan kærði nauðgunina. Leit er nú hafin að árásarmönnum hennar.
Konur þolendur flestra ofbeldisglæpa
Opinberar tölur sýna að konur eru þolendur í yfirgnæfandi meirihluta ofbeldisglæpa á Indlandi. Á síðasta ári voru skráðir 256.329 ofbeldisglæpir og voru konur þolendur í 228.650 tilfellum. Talið er að raunverulegur fjöldi ofbeldisglæpa sé mun meiri, þar sem margar konur kæra ekki til lögreglu.
Forsætisráðherra Indlands, Manmohan Singh, hét því í ræðu í dag að beita sér fyrir nýrri löggjöf til að ná yfir ofbeldisglæpi gegn konum.