Sú var tíðin að New York var kölluð morðhöfuðborg Bandaríkjanna, áður en herör var skorin upp gegn glæpum. Í dag tilkynnti svo Michael Bloomberg, borgarstjóri New York, að færri morð hefðu ekki verið framin í borginni á einu ári í hálfa öld.
Alls voru 414 morð framin í New York árið 2012, sem er um 19% fækkun frá því í fyrra þegar 515 morð voru framin. Frá þessu greindi Bloomberg við athöfn sem haldin var í dag til heiðurs lögreglunni í New York. Þar með féll metið frá 2009, þegar 471 morð var framið.
Raunar hafa morð aldrei verið færri í stórborginni frá því talningar hófust árið 1963. Bloomberg benti á að fækkunin væri 19% milli ára frá 2011. „Þeim hefur fækkað um 35% frá því sem var fyrir 11 árum þegar við tókum við stjórnartaumunum,“ sagði Bloomberg í dag, en hann hefur lengi verið talsmaður hertrar skotvopnalöggjafar.
Árið 1990 voru framin yfir 2.260 morð í New York-borg, sem þýðir að fimm sinnum færri morð voru framin í ár en fyrir 22 árum. Morðtíðnin í borginni er nú 3,8 morð á hverja 100.000 íbúa. New York-borg hefur þar með lægri morðtíðni en nokkur önnur bandarísk stórborg.
Þá má nefna að Bloomberg borgarstjóri tilkynnti í síðustu viku að fækkað hefur í fangelsum New York-borgar um þriðjung á áratug, frá 2001 til 2011.