Ekki í boði að endurheimta völd

Herman van Rompuy, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins.
Herman van Rompuy, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins. AFP

Evrópusambandið gæti liðast í sundur ef samþykkt yrði að Bretar fengju til baka ýmis völd sem þeir hafa framselt til stofnana sambandsins. Þetta segir forseti leiðtogaráðs sambandsins, Herman van Rompuy, í viðtali við breska dagblaðið Guardian sem birt var í gær. Sagði forsetinn ekki í boði að ríki Evrópusambandsins veldu hvaða lögum sambandsins þau vildu fara eftir.

„Ef hvert aðildarríki færi að velja þá hluta núverandi stefnumála [Evrópusambandsins] sem því líkaði best við og draga sig út úr þeim sem því líkaði minnst myndi sambandið í heild, og sérstaklega innri markaðurinn, bráðlega liðast í sundur,“ segir Van Rompuy og bætir við að hvert ríki Evrópusambandsins hafi sérstakar óskir og þarfir sem hafðar væru í huga þegar teknar væru ákvarðanir.

Ennfremur sagði forsetinn að ef Bretar ákvæðu að yfirgefa Evrópusambandið myndi það bæði skaða þá sjálfa og þau ríki sem eftir yrðu í sambandinu en þrýstingur hefur vaxið mjög í Bretlandi um að haldið verði þjóðaratkvæði um veruna í Evrópusambandinu. David Cameron, forsætisráðherra Breta, hefur viljað taka upp viðræður við sambandið um að endurheimta ákveðin völd yfir breskum málum frá stofnunum þess.

Talið er að Cameron vilji stilla upp þeim valkostum í mögulegu þjóðaratkvæði að annað hvort yfirgefi Bretland Evrópusambandið eða verði áfram í því en með aukin völd yfir eigin málum. Er búist við að hann muni kynna stefnu sína um breytt samband við Evrópusambandið í áramótaræðu sinni.

Fram kemur í frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph um málið að leiðtogar Evrópusambandsins óttist að verði samþykkt að Bretar geti endurheimt hluta þess valds sem framselt hafi verið til sambandsins kunni það að leiða að lokum til þess að þeir yfirgefi það auk þess sem önnur ríki Evrópusambandsins kunni þá að setja fram hliðstæðar kröfur.

Frétt Guardian

Frétt Daily Telegraph

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert