Indverska konan er látin

Unga konan sem varð fyrir hópnauðgun í strætisvagni í Delhi í Indlandi um miðjan desember er dáin. Hún lést á sjúkrahúsi í Singapúr vegna fjöllíffærabilunar.

Konan var í gær flutt á sjúkrahúsið Mount Elizabeth í Singapúr, sem sérhæfir sig í líffæraflutningum, í von um að bjarga mætti lífi hennar með skurðaðgerð. „Þrátt fyrir að teymi 8 sérfræðinga hafi reynt allt til að halda henni stöðugri þá hélt henni áfram að hraka síðustu tvo daga, segir í yfirlýsingu frá Kelvin Loh, forstjóra sjúkrahússins.

Þar segir að hún hafi dáið friðsælum dauðdaga klukkan 4.45 að staðartíma, eða laust fyrir klukkan 20 í kvöld að íslenskum tíma. Dánarorsök er fjöllíffærabilun í kjölfar alvarlegra áverka bæði á líkama og heila. „Hún barðist fyrir lífi sínu af einskæru hugrekki í svo langan tíma þrátt fyrir að líkurnar væru gegn henni, en áfallið sem líkami hennar varð fyrir var á endanum of mikið til að hún gæti sigrast á því,“ sagði Loh.

„Fjölskylda hennar og fulltrúar frá indverskum stjórnvöldum voru við hlið hennar þegar hún lést. Læknar á spítalanum, hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk syrgja dauða hennar og votta fjölskyldu hennar samúð. Við erum full auðmýktar gagnvart því verkefni sem okkur var fengið að hlúa að henni í lokabaráttunni.“

Unga konan, sem var 23 ára háskólanemi, var á leið heim úr bíó í strætó ásamt karlkyns vini sínum þegar múgur karlmanna réðst á þau, misþyrmdi þeim og nauðgaði henni. Þau voru skilin eftir í blóði sínu í vegkanti.

Málið hefur vakið mikla athygli innan lands sem utan og hrundið af stað bylgju mótmæla í Indlandi þar sem konur hafa lengi mátt þola kynferðisáreitni og -ofbeldi og sinnuleysi stjórnvalda gagnvart því. Á síðasta ári voru skráðir 256.329 ofbeldisglæpir á Indlandi og voru konur þolendur í 228.650 tilfellum en talið er að í raun séu ofbeldisbrot gegn konum enn fleiri þar sem margar þeirra treysta sér ekki til að kæra til lögreglu.

Kynferðisáreitni samfélagsmein á Indlandi

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert