Þúsundir mótmæla í Nýju-Delí

Þúsundir taka nú þátt í friðsamlegum mótmælum á götum höfuðborgar Indlands vegna kynferðisofbeldis í landinu. Í gær lést ung kona af völdum áverka er hún hlaut þegar henni var nauðgað á hrottalegan hátt í strætisvagni í borginni um miðjan desember.

Konan, sem var 23 ára háskólanemi, var á leið heim úr bíó í strætó ásamt karlkyns vini sínum  þann 16. desember síðastliðinn þegar hópur manna réðst á þau, misþyrmdi þeim og nauðgaði henni. Þeim var síðan hent út úr vagninum á ferð og þau skilin eftir í blóði sínu. Málið hefur vakið gríðarlega athygli, bæði í Indlandi og á heimsvísu. Kynferðisafbrot eru mjög algeng í Indlandi og í kjölfar baráttu samtaka sem berjast gegn kynferðisbrotum stíga nú æ fleiri fórnarlömb kynferðisofbeldis fram. 

Háværar gagnrýnisraddir kröfðust uppsagnar lögreglumannanna sem hvöttu stúlkuna til að láta málið niður falla. Tveimur lögreglumönnum hefur nú verið vikið frá störfum í tengslum við atvikið. 

Lík konunnar verður flutt með flugvél aftur til Indlands, en útför hennar mun fara fram í kyrrþey.

Almenningur „haldi ró sinni“

Lögregla hefur girt af stóra hluta miðborgar Nýju-Delí nærri byggingum stjórnsýslunnar, auk þess sem fjölmörgum lestarstöðvum hefur verið lokað og inngöngubann í borgina hefur verið komið á. 

Hundruð vopnaðra lögreglumanna og fulltrúa óeirðalögreglunnar vakta borgina. Lögreglustjóri borgarinnar hefur gefið út yfirlýsingu til almennings um að halda ró sinni. 

Samkomur 5 eða fleiri hafa verið bannaðar í miðju borgarinnar, en þrátt fyrir það hafa um 4.000 manns safnast saman í nágrenni við Jantar Mantar útsýnisturninn, en hann er einn fárra staða í borginni þar sem mótmæli eru leyfð, samkvæmt því sem fram kemur á vef BBC fréttastofunnar.

Fjölmennur hópur stóð fyrir hljóðri mótmælagöngu í gegnum Nýju-Delí fyrr í dag.

Einn þátttakenda í mótmælunum, Poonam Kaushik, sagði að stjórnvöld bæru ábyrgð á árásinni vegna vangetu sinnar til að tryggja öryggi kvenna í borginni. Hann sagði jafnframt að lát konunnar myndi auka enn á reiði almennings gagnvart stjórnvöldum og stefnu þeirra í kynferðisafbrotamálum.

Á einu skilti mátti sjá skilaboð til stjórnvalda: „Við kærum okkur ekki um samúðaróskir ykkar! Við viljum ekki uppgerðareftirsjá ykkar! Við krefjumst tafarlausra aðgerða til að styrkja lög gegn kynferðisofbeldi!“ 

Innanríkisráðherra Indlands, Sheila Dikshit lýsti árásinni sem „skammarlegu andartaki“ í sögu þjóðarinnar. Hún gerði tilraun til að taka til máls í mótmælunum en var púuð niður af öðrum þátttakendum.

Einnig hefur verið blásið til mótmæla í öðrum borgum landsins, þar á meðal í Kalkútta, Bangalor og Mumbai. 

Harðasta mögulega refsing

Reiðiviðbrögð hafa verið áberandi í indverskum fjölmiðlum, en í ritstjórnargrein indversku útgáfu Times var kallað eftir víðtækum samfélags- og viðhorfsbreytingu. Í greininni var vakin athygli á að auk þeirra árása sem eiga sér stað á götum „heyri enginn raddir þúsunda kvenna sem búa við kynferðisofbeldi á heimilum sínum.“

Hin 23 ára stúlka hefur á síðustu vikum orðið að táknmynd málstaðar þeirra sem berjast gegn kynferðisofbeldi gegn konum í Indlandi, og leggja mótmælendur áherslu á að viðhorf gagnvart konum og réttindum þeirra verði tekin til gagngerrar endurskoðunar í landinu. 

Innanríkisráðherra Indlands, Ratanjit Pratap Narain Singh, sagðist vera niðurbrotinn eftir fráfall stúlkunnar. „Ég get aðeins fullvissað fjölskylduna um að stjórnvöld munu tryggja að morðingjar stúlkunnar fá hörðustu mögulegu refsingu og að dómur falli á sem skemmstum tíma,“ sagði Narain Singh í samtali við fjölmiðla. 

„Ríkisstjórnin mun auk þess vinna myrkranna á milli til að innleiða lög og ferla sem tryggja að engin önnur manneskja og enginn annar þegn þessa lands þurfi að upplifa áfall af þessu tagi,“ sagði Narain Singh. 

Forsætisráðherra Indlands, Manmohan Singh, sagðist vera „harmi sleginn“ yfir andláti stúlkunnar og að reiði almennings væri „fullkomlega skiljanleg.“ 

Stjórnvöld hafa gripið til aðgerða til að auka öryggi kvenna í Nýju-Delí meðal annars með aukinni löggæslu á nóttunni, hertu eftirliti í almenningssamgöngum og banni gegn því að gluggar strætisvagna séu skyggðar með filmum eða gluggatjöldum.

Stjórnvöld hafa enn fremur gefið út að myndir, nöfn og heimilisföng dæmdra nauðgara verði birt á opinberri vefsíðu.

Í gær var einnig greint frá því að 17 ára gömul indversk stúlka sem varð fyrir hópnauðgun hafi svipt sig lífi í kjölfar þrýstings sem hún varð fyrir af hálfu lögreglu um að láta málið niður falla og ganga í hjónaband með einum árásarmannanna. Systir hennar steig fram í Punjab í gær og sagði frá dauða systur sinnar.

Hópnauðgunin átti sér stað meðan á Diwali-hátíðinni stóð hinn 13. nóvember. Stúlkan er sögð hafa ítrekað reynt að fá málið tekið upp hjá lögreglu en hún hafi alls staðar verið hundsuð og lögregla neitað að rannsaka nauðgunina. Í gærkvöldi fannst hún látin eftir að hafa gleypt eitur.

Systir stúlkunnar segir að lögreglan hafi beitt hana þrýstingi um að láta málið niður falla en ná heldur sáttum við árásarmennina og giftast jafnvel einum þeirra. Einum lögreglumanni hefur verið vikið frá störfum fyrir að hafa neitað að skrá málið þegar stúlkan kærði nauðgunina. Leit er nú hafin að árásarmönnum hennar.

Þúsundir mótmæla nú friðsamlega í miðborg Delí í Indlandi í …
Þúsundir mótmæla nú friðsamlega í miðborg Delí í Indlandi í kjölfar andláts stúlku sem var fórnarlamb hópnauðgunar þar í landi. NARINDER NANU
Almenningur kallar eftir hertum refsingum við kynferðisafbrotum og gagngerri viðhorfsbreytingu.
Almenningur kallar eftir hertum refsingum við kynferðisafbrotum og gagngerri viðhorfsbreytingu. RAVEENDRAN
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert