Efast um gagn vopnaðra varða

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. AFP

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, segist fullur efasemda um ágæti hugmynda Samtaka bandarískra byssueigenda (NRA) um að hafa vopnaða verði í skólum landsins. Forsetinn heitir því að leggja allt kapp á að herða vopnalöggjöfina í landinu.

Í viðtali í spjallþættinum Meet the Press á NBC-sjónvarpsstöðinni sagðist Obama vonast til þess að geta komið nýjum byssulögum í gegnum þingið á nýju ári. Hann sagði jafnframt að dagurinn þegar ungur maður skaut tuttugu börn til bana í skóla Connecticut hafi verið versti dagur forsetatíðar sinnar.

„Ég ætla að setja fram frumvarp og ég mun þrýsta því áfram með allri minni vigt. Ég mun útskýra fyrir bandarísku þjóðinni hvers vegna þetta er mikilvægt og hvers vegna við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að fullvissa okkur um að eitthvað í líkingu við það sem gerðist í Sandy Hook-grunnskólanum eigi sér ekki stað aftur,“ sagði Obama.

Þá ræddi forsetinn um hugmyndir NRA um að staðsetja vopnaða verði í skóla til þess að koma í veg fyrir að önnur skotárás af slíku tagi endurtaki sig.

„Ég hef efasemdir um að eina svarið sé að setja fleiri byssur í skólana. Ég held að mikill meirihluti Bandaríkjamanna efist um að það muni á einhvern hátt leysa vandamál okkar,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert