Ráðleysi í stríði gegn eiturlyfjum

AFP

Frumvarp um hert viðurlög við eiturlyfjaneyslu í Brasilíu hefur enn á ný kveikt umræðu um hið svokallaða stríð gegn eiturlyfjum. Í frumvarpinu er kveðið á um að dómar fyrir að hafa eiturlyf í fórum sínum verði þyngdir og fíklar verði skilyrðislaust læstir inni. Fernando Henrique Cardoso, fyrrverandi forseti landsins, gagnrýndi frumvarpið harðlega nú milli jóla og nýárs og sagði í viðtali við dagblaðið O Globoað það væri bæði gagnslaust og myndi hafa hrikalegar afleiðingar að gera eiturlyfjanotkun að lögreglumáli.

„Þeir sem misnota eiturlyf kunna að skaða sjálfa sig og fjölskyldur sínar, en það hjálpar þeim ekki að læsa þá inni,“ sagði Cardoso, sem var forseti frá 1995 til 2002, og bætti við að skilyrðislaus fangelsun fíkla hefði verið fordæmd um allan heim vegna þess að hún væri óskilvirk, brennimerkti fíkilinn og væri brot á mannréttindum.

Vandamál um allan heim

Hin fyrirhugaða lagasetning í Brasilíu er dæmi um ráðleysi yfirvalda um allan heim í baráttunni gegn misnotkun fíkniefna.

Brasilía er talin stærsti markaður heims fyrir eiturlyfið krakk og næststærsti markaðurinn þegar kemur að almennri notkun kókaíns. Osmar Terra, einn af flytjendum frumvarpsins, segir að eiturlyf og þá sérstaklega krakk skapi gríðarlegan heilbrigðisvanda í landinu og stofni öryggi almennings í voða.

Öryggi almennings er ekkert síður í voða í Mexíkó. Mexíkanskir landgönguliðar héldu að þeir hefðu gert strandhögg þegar þeir felldu Heriberto Lazcano, foringja hinna voldugu glæpasamtaka Zetas, í skotbardaga 7. október. Fögnuður stjórnvalda var skammvinnur. Nokkrum klukkustundum síðar réðust vopnaðir menn inn á líkstofuna þar sem hinn fallni glæpakóngur lá og höfðu lík hans á brott. Þannig hafa skipst á skin og skúrir í baráttu mexíkanskra yfirvalda við eiturlyfjahringina.

Talið er að 60 þúsund manns hafi látið lífið í Mexíkó í átökum vegna eiturlyfja á undanförnum sex árum. Eiturlyfjaforingjarnir svífast einskis, búta óvini sína í sundur og hengja þá í brúm.

Vandinn er ekki bundinn við Ameríku. Í Afganistan fór 18% meira land undir valmúarækt á þessu ári en í fyrra, þótt ópíumframleiðsla hafi dregist saman vegna ótíðar. Í árlegri skýrslu Sameinuðu þjóðanna um eiturlyf og glæpi segir að þessi aukna rækt sé verulegt áhyggjuefni.

Um 90% af ópíumi heimsins er framleitt í Afganistan og er ein af rótum spillingar í landinu. Talibanar heimta skatt af valmúabændum og nota tekjurnar í baráttuna gegn stjórnvöldum og herjum Atlantshafsbandalagsins.

Það hefur verið á dagskrá að þurrka ópíumframleiðsluna út frá því að stjórn talibana var steypt í innrásinni í Afganistan undir forustu Bandaríkjamanna árið 2001. Það hefur ekki gengið, ekki síst vegna þess hvað verðið er hátt og útilokað að bændur geti haft jafn miklar tekjur af öðrum landbúnaði.

Uggur í Evrópu

Þá óttast yfirvöld greinilega að aukin harka sé að færast í undirheima Evrópu. Á föstudag gaf evrópska lögregluembættið Europol út viðvörun um að óttast mætti gengjastríð líkt og á Norðurlöndunum í lok 20. aldar vegna innrásar mótorhjólagengja frá Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu. Gengi á borð við Comancheros og Rebels frá Ástralíu, Rock Machine frá Kanada og Mongólanna frá Bandaríkjunum væri að ryðja sér til rúms í Evrópu og leituðu þar nýliða. Þessi gengi hygðust hasla sér völl í eiturlyfjamisferli, vopnasölu og mansali og þeim fylgdi „öfgakennt ofbeldi“.

Richard Nixon, þáverandi Bandaríkjaforseti, lýsti yfir stríðinu gegn eiturlyfjum árið 1971. Því fylgdu harðar aðgerðir til að stemma stigu við flæði eiturlyfja til Bandaríkjanna, sem hafa sett svip sinn á löggæslu, sérstaklega sunnan bandarísku landamæranna.

Nú er komin fram hávær krafa um að endurskoða þessar aðferðir. Leiðtogar Mexíkó, Hondúras, Costa Rica og Belize skoruðu í nóvember á Sameinuðu þjóðirnar að fara ofan í „árangur og takmarkanir“ núverandi aðferða gegn eiturlyfjamisferli. Meirihluti atkvæða fyrir lögleiðingu marijúana í ríkjunum Colorado og Washington í Bandaríkjunum í kosningunum í nóvember hefur ýtt undir þá kröfu.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert