Tvítug kona af tyrkneskum uppruna varð fyrir sýruárás í Þýskalandi í gær. Þýska lögreglan hefur handtekið tvo karlmenn sem grunaðir eru um árásina. Konan hlaut alvarleg brunasár undan sýrunni.
Mennirnir réðust á konuna á dyraþrepinu við heimili hennar, í bænum Hilden í Vestur-Þýskalandi, þegar hún opnaði útidyrnar og skvettu yfir hana sýru úr niðursuðudós. Konan fann samstundis fyrir miklum bruna í andliti og hafði samband við neyðarlínu. Hún var flutt samstundis á sjúkrahús. Amma hennar meiddist einnig lítillega í árásinni.
Annar hinna grunuðu, 22 ára gamall karlmaður af tyrkneskum uppruna, var handtekinn í gær og hefur lögregla farið fram á gæsluvarðhald yfir honum. Við yfirheyrslu sagðist hann hafa beðið kunningja sinn um að framkvæma árásina, samkvæmt því sem segir í yfirlýsingu frá lögreglunni og saksóknara í Dusseldorf. Í dag gaf hinn maðurinn sig fram við lögreglu, en sá er 18 ára gamall piltur.
Að sögn lögreglu notuðust mennirnir við sýru sem þeir keyptu í apóteki. Konan hafði þrisvar sinnum tilkynnt lögreglu um hótanir mannanna í hennar garð og kært þá fyrir að beita hana ofbeldi. Að sögn þýsku lögreglunnar höfðu ungu mennirnir fengið fyrirskipun um að halda sig frá stúlkunni.