Afganskur karlmaður sem afplánar dóm í fangelsi myrti eiginkonu sína er hún kom að heimsækja hann. Hann situr inni fyrir að myrða ættingja konunnar.
Din Mohammad var dæmdur í 20 ára fangelsi fyrir tveimur árum fyrir að drepa tengdamóður sína, bróður og systur eiginkonu sinnar í Samangan-héraði í norðurhluta landsins.
Eiginkona Mohammads heimsótti hann í fangelsið á mánudag og fannst svo látin í litlu einkaherbergi sem fangar fá afnot af til að hitta ættingja sína.
Mohammad játaði morðið. Lögreglustjórinn í héraðinu segir að móðir Mohammads hafi sagt honum að eiginkonan héldi fram hjá honum. Er hún heimsótti hann í fangelsið kyrkti hann hana með höfuðklútnum sem hún bar.
Samkvæmt nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna gengur betur nú en áður að draga úr ofbeldi gegn konum. Slíkt ofbeldi er þó enn mjög mikið í landinu og svokölluð heiðursmorð og þvinguð hjónabönd enn tíð.