Vopnað rán var framið í morgun skartgripaverslun í borginni Södertälje suðvestur af Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar. Fjórir grímuklæddir menn tóku þátt í ráninu og komust þrír þeirra undan lögreglu en sá fjórði varð fyrir skotum lögreglumanna. Hann var fluttur á sjúkrahús og liggur ekki fyrir hversu alvarlegt ástand hans er en hann var skotinn í höfuðið.
Ekki er vitað hvað ræningjunum tókst að hafa á brott með sér af verðmætum en þegar þeir hugðust yfirgefa verslunina eftir ránið var lögregla mætt á staðinn og skaut á þá. Sjálfir voru ræningjarnir vopnaðir árásarrifflum að sögn vitna, sennilega af Kalashnikov-gerð, og skutu á lögreglumennina.
Mennirnir földu sig á bak við bifreið sem þeir hugðust flýja í þegar lögreglan skaut á þá en reyndu síðan að læðast meðfram henni og komast inn í hana. Við það varð einn þeirra fyrir skoti í höfuðið. Hinir komust inn í bifreiðina og tókst að komast undan.
Bifreiðin fannst skömmu síðar mannlaus en talið er að þeir hafi skipt um bifreið.
Myndir frá ráninu má sjá hér.