Depardieu kemur sér fyrir á nýjum slóðum

Franski leikarinn Gerard Depardieu, sem hefur verið talsvert til umfjöllunar að undanförnu vegna nýs ríkisborgararéttar síns í Rússlandi, fór í dag til borgarinnar Saransk þar sem honum hefur verið boðin búseta og húsnæði.

Saransk er í Mordoviuhéraði í Mið-Rússlandi, sem hingað til hefur helst verið þekkt fyrir fangabúðir Stalínstímans. Enn eru fangar þar hýstir, sá þekktasti sem þar er nú er líklega Nadezhda Tolokonnikova, úr pönksveitinni Pussy Riot, sem dæmd var til tveggja ára vistar í vinnubúðum fyrir að hafa sungið pönkbæn gegn Pútín forseta í kirkju í Moskvu.

Nú er þar fimbulkuldi en leikarinn franski lét það ekki á sig fá, heldur gekk um berhöfðaður og þáði blini, einn af þjóðarréttum Rússa, af stúlkum í þjóðbúningum og var honum fagnað sem þjóðhetju. Þá fékk hann ýmsar gjafir, þar á meðal kuldastígvél og tvo kettlinga.

Interfax-fréttastofan greindi frá því í dag að Depardieu hefði verið boðið að velja sér íbúð eða lóð til að byggja nýtt hús. „Hér er ég hamingjusamur. Það er fallegt hér, hér býr tilfinningaríkt og fagurt fólk,“ sagði leikarinn og mærði konur bæjarins ákaft fyrir fegurð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert