Ekkert er gefið varðandi það hvort Tyrkland á eftir að verða aðildarríki Evrópusambandsins að sögn utanríkisráðherra Svíþjóðar, Carls Bildt. Haft er ennfremur eftir ráðherranum í frétt AFP að til þess að til tyrkneskrar aðilar geti komið sé ljóst að bæði sambandið og Tyrkir þurfi að vinna betur heimavinnuna sína.
„Ekkert er gefið í þessum heimi. Ekkert er gefið í lífinu,“ segir Bildt sem sjálfur er mikill stuðningsmaður þess að Tyrkir fái aðild að Evrópusambandinu en rætt var við hann í borginni Izmir í vesturhluta Tyrklands þar sem hann fundaði með tyrkneskum sendiherrum.
„Það krefst fyrirhafnar af beggja hálfu. Það krefst þess að Tyrkir haldi áfram að koma á umbótum og að Evrópusambandið sé áfram opið gagnvart málinu,“ segir hann ennfremur en Tyrkir sóttu um aðild að sambandinu árið 1987. Ýmislegt hefur tafið fyrir aðild þeirra og þá einkum deilur við Kýpur og staða mannréttindamála í landinu.
Bildt segist vona að til tíðinda dragi í aðildarferli Tyrklands á þessu ári. Hann segist ennfremur trúa því að á endanum verði Tyrkir aðilar að Evrópusambandinu. „Já, ég trúi því. Ekki spyrja mig hvenær en ég trúi því.“