Um helmingur ungmennanna, sem lifðu af voðaverkin á norsku eyjunni Útey, þjáist af þunglyndi og áfallastreituröskun. Mörg þeirra glíma við sjálfsmorðshugsanir. Þetta sýnir ný rannsókn.
77 létust í árásum fjöldamorðingjans Anders Behrings Breivik í Útey og í Ósló 22. júlí árið 2011. Þar af létust 69 í Útey.
325 ungmenni sem lifðu af og 463 foreldrar eða aðrir forráðamenn þeirra tóku þátt í rannsókninni sem er stýrt af barna- og unglingasálfræðingnum Grete Dyb.
„Mörg ungmennanna þjást af ýmsum afleiðingum eins og að sjá endurtekið fyrir sér atburði dagsins. Þau fá streitueinkenni ef þau heyra hljóð eða skynja eitthvað annað sem minnir þau á atburðina. Þá eiga mörg þeirra erfitt með svefn og geta illa einbeitt sér,“ segir Dyb í viðtali við Aftenposten í dag.
Hinn 23 ára gamli Adrian Pracon er einn þeirra sem lifðu af. Hann var auðvelt skotmark fyrir Anders Behring Breivik, en lífi hans var þyrmt, því Breivik þótti Pracon svo „hægrisinnaður útlits“.
Pracon þjáist af þunglyndi, hann íhugar sjálfsvíg og hefur fengið aðstoð á geðdeild sjúkrahúss. Um miðjan desember skrifaði hann á facebooksíðu sína:
„Efir árásirnar 22. júlí hef ég óttast hver verði 78. fórnarlambið. Þrátt fyrir að sjálfsvíg sé viðkvæmt umfjöllunarefni ætla ég að halda áfram að minna á alla þá sem þurfa að berjast fyrir því á degi hverjum að fá sitt fyrra líf til baka. Það er ekki bannað að segja frá því að maður er þreyttur á þessari baráttu og það eru engin mistök að viðurkenna að maður þurfi á aðstoð að halda. Ég leggst nú inn á geðdeild, því að ég ætla ekki að verða númer 78.“
Pracon er í meðferð á geðdeild.
„Baráttan er miskunnarlaus hvern einasta dag. Hún rífur í mig og slítur mér út,“ segir Pracon við Aftenposten. „Ég hef ekki reynt að taka eigið líf, en ég hugsa mikið um það. Öll mín orka fer í að standa í fæturna og sýnast eðlilegur. Ég lifði af atburðina í Útey, en daglegt líf veitir mér ekki lengur neina gleði.“
Síðastliðið sumar var hann dæmdur til samfélagsþjónustu og sektargreiðslu fyrir líkamsárás.
Pracon er staðráðinn í að vinna bug á veikindum sínum. „Ég hata þennan nýja Adrian, ég vil fá þann gamla til baka.“