Gabrielle Giffords, þingkonan fyrrverandi sem varð heimsfræg þegar hún lifði af byssuskot í höfuðið, hrinti í dag af stað herferð til að þrýsta á strangari byssulöggjöf í Bandaríkjunum.
Það var í janúar 2011 sem Giffords var skotin í höfuðið þegar hún hitti kjósendur sína í heimaríkinu Arizona. Herferðina kynnti hún í dag eftir að hafa heimsótt smábæinn Newtown í Connecticut þar sem 20 börn voru skotin til bana í skotárás hinn 14. desember.
„Við getum ekki bara vonað að síðasta skotárás muni koma í veg fyrir þá næstu,“ segir í grein eftir Giffords og eiginmann hennar, geimfarann Mark Kelly, í dagblaðinu USA Today í dag. „Ef við ætlum að ná fram endurbótum til að draga úr skotárásum og fyrirbyggja fjöldamorð þurfum við að standa jafnfætis stuðningsmönnum byssueignar í úrræðum og útbreiðslu boðskaparins.“
30.000 deyja á ári
Giffords kallar átak sitt „Bandaríkjamenn sem styðja ábyrgar lausnir“. Með því ætlar hún sér að safna fé í sjóði til að jafna út áhrifamátt NRA, samtaka byssueigenda í Bandaríkjunum, og styrkja stjórnmálamenn sem eru tilbúnir að styðja herta byssulöggjöf.
Eftir fjöldamorðin í Newtown hét Barack Obama Bandaríkjaforseti því að gripið yrði til nýrra aðgerða til að sporna við skotárásum í landinu. Árásarmaðurinn beitti Bushmaster-herriffli úr eigu móður sinnar.
NRA vill bregðast við fjöldamorðunum með því að koma fyrir vopnuðum vörðum við alla grunnskóla í Bandaríkjunum til að koma í veg fyrir frekari skotárásir. Um 30.000 manns falla fyrir skotvopnum árlega í Bandaríkjunum.