Lögregla skaut mann í bíói

AFP

Gestir kvikmyndahúss í San Diego í Bandaríkjunum þurftu að leita skjóls er lögreglan kom skyndilega inn í kvikmyndasalinn og skaut og særði vopnaðan mann. Maðurinn er grunaður um heimilisofbeldi.

Ljósin kviknuðu skyndilega í Reading-kvikmyndahúsinu á sýningu Les Miserables á laugardag, að því er fram kemur í frétt AP-fréttastofunnar. Tveir lögreglumenn sem höfðu farið milli kvikmyndahúsa í leit að hinum grunaða ofbeldismanni, birtust svo í salnum og komu auga á manninn meðal um það bil 15 annarra áhorfenda. Flestir gestanna hentu sér strax í gólfið og skriðu í átt að útganginum, að sögn sjónvarvotta.

Í fyrstu var maðurinn sem handtaka átti samvinnuþýður og hlýddi lögreglunni. En svo teygði hann sig í byssu og beindi henni að lögregluþjóni.

Lögregluþjónninn, sem aðeins hafði verið í lögreglunni í 18 mánuði, skaut manninn í brjóstkassann og handlegginn. Maðurinn er á sjúkrahúsi en ekki í lífshættu.

Vitni höfðu fyrr um daginn séð manninn rífast við kærustu sína á vinnustað hennar. Maðurinn hótaði vinnufélögum konunnar með byssu og lét sig svo hverfa af vettvangi.

Lögreglan hóf þegar leit að honum og fann hann loks í kvikmyndahúsinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert