Nauðgunum beitt sem vopni

Frá flóttamannabúðunum í Azaz í Tyrklandi, skammt frá landamærunum að …
Frá flóttamannabúðunum í Azaz í Tyrklandi, skammt frá landamærunum að Sýrlandi. Fjöldi kvenna og barna hafa flúið Sýrland vegna nauðgana. AFP

Nauðgunum er beitt kerfisbundið í átökunum í Sýrlandi og eru ein helsta ástæða þess að tugþúsundir kvenna og barna hafa flúið til nágrannaríkjanna Jórdaníu og Líbanons.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu mannréttindasamtakanna International Rescue Committee, IRC, sem birt var í dag. Samtökin ræddu við fjölda sýrlenskra kvenna sem nú hafast við í flóttamannabúðum.

Í skýrslunni segir að fjöldi kvenna og barnungra stúlkna hafi greint frá því að á þær hafi verið ráðist á almannafæri eða inni á heimilum þeirra, yfirleitt af hópi vopnaðra manna. Stundum hafi verið um hópnauðganir að ræða og þær hafi verið framdar fyrir framan aðra fjölskyldumeðlimi. 

Fæstar kvennanna kæra glæpina, þar sem mikil smán þykir að verða fyrir nauðgun. Margar þeirra kvenna sem IRC ræddi við sögðust óttast svokölluð „heiðursmorð“, að þær yrðu myrtar af fjölskyldu sinna vegna þess að þær hefðu kallað skömm yfir fjölskylduna. Þá voru barnungar stúlkur hræddar um að þær yrðu að giftast innan tíðar til að tryggja heiður þeirra eftir að hafa verið nauðgað.

Í skýrslu IRC segir að konurnar í flóttamannabúðunum fái litla sem enga læknishjálp eða ráðgjöf, þar séu aðstæður afar ótryggar og konur verði þar fyrir ofbeldi.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna segir að meira en 600.000 Sýrlendingar hafi leitað hælis í nágrannalöndunum og í löndum Norður-Afríku. Stofnunin býst við því að fjöldinn fari upp í 1,1 milljón í júní, ef átökum linni ekki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert