Sameinuðu þjóðirnar styðja hernaðaríhlutun Frakka í Vestur-Afríkuríkinu Malí. Frakkar hafa bætt við herafla sinn og hafa loftárásir þeirra í norðurhluta landsins neytt herskáa íslamista til að hörfa.
Íslamistar tóku yfir norðurhluta landsins fyrir um tíu mánuðum síðan og hafa á þeim tíma innleitt þar múslímalög samkvæmt ströngustu skilgreiningu þeirra. Til dæmis hafa aftökur verið þar tíðar, sömuleiðis aflimanir fyrir minni háttar afbrot.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kom saman í gær. Á þeim fundi var lýst yfir einróma stuðningi við aðgerðir Frakka. Samkvæmt upplýsingum frá SÞ hafa meira en 30.000 almennir borgarar á Malí flúið heimili sín undanfarna daga. Íslamistar eru sagðir hafa hindrað þá í að komast leiðar sinnar til þeirra svæða í suðurhluta landsins sem eru á valdi ríkisstjórnarinnar.
Malí er fyrrum nýlenda Frakka.
Frakkar og aðrar þjóðir sem sæti eiga í Öryggisráðinu hafa hug á að senda 3.300 manna fjölþjóðlegt herlið með stuðningi SÞ til Malí. Nígería hyggst senda þangað 600 hermenn fyrir lok þessarar viku og ýmis önnur Afríkuríki hafa gefið vilyrði fyrir að senda þangað herafla.
Þá hafa Bretar og Kanadamenn boðið fram aðstoð sína og sömuleiðis bandaríska leyniþjónustan. Alsíringar hafa lokað landamærum sínum að norðurhluta Malí til að hindra að íslamistar komist inn í landið og Máritanar hafa einnig lokað landamærum sínum sem snúa að vesturhluta Malí.