Coca-Cola varar við offitu

mbl.is/afp

Coca-Cola fyrirtækið mun í dag byrja að birta sjónvarpsauglýsingar þar sem því er haldið fram, að offita sé afleiðing of mikillar neyslu orkuríkrar fæðu, ekki bara gosdrykkja. Þetta er í fyrsta sinn sem Coca-Cola tekur á hinu mikla vandamáli sem offita er.

Coca-Cola varð að einu öflugasta vörumerki heims með því að kynna drykki sína sem uppsprettu ánægju og vellíðunar. Nú hefur það hins vegar ákveðið í fyrsta sinn í sögu sinni að láta til sín taka vaxandi illviðrisský sem mara yfir drykkjarvöruframleiðendum: offitu.

Tveggja mínútna auglýsingar munu birtast frá og með í dag í vinsælustu þáttunum á sjónvarpsstöðvunum CNN, Fox News og MSNBC.  

Drykkjarvöruframleiðendur sæta nú vaxandi þrýstingi vegna sykurmikilla gosdrykkja. Síðar á árinu koma til að mynda til framkvæmda í New York borg reglur sem takmarka magn gosdrykkja sem leyft verður að bera fram og selja í veitingahúsum, kvikmyndahúsum og íþróttaleikvöngum. Borgarstjóri Cambridge í Massachusettes hefur gripið til sambærilegra aðgerða.

Michael Jacobson, framkvæmdastjóri vísindastofnunar sem lætur sig lýðheilsu varða gagnrýnir auglýsingaherferð Coca-Cola. Væri fyrirtækinu alvara, segir hann, myndi það hætta baráttu sinni gegn hækkun skatta á gosdrykki. „Þetta er eins og úr forskrift að aðgerðum til að bæta ímynd sína. Þeir eru að reyna að afvopna almenning,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert