Hrossakjöt í hamborgurum

Það leynist ýmislegt í hamborgurum sem seldir eru í búðum …
Það leynist ýmislegt í hamborgurum sem seldir eru í búðum í Bretlandi. mbl.is

Hrossakjöt hefur fundist í hamborgurum sem eru til sölu í verslunum Tesco, Lidl, Aldi, Iceland og Dunnes í Bretlandi. DNA-rannsókn leiddi þetta í ljós. Hamborgarar frá einum framleiðanda sem seldir eru í Tesco reyndust innihalda 29% hrossakjöt.

Þetta kemur fram í frétt á breska blaðinu Telegraph. Hrossakjöt er mun ódýrara kjöt en nautakjöt sem almennt notað í hamborgara.

Tesco brást strax við þegar niðurstaða rannsóknarinnar lá fyrir og fjarlægði alla ferska og frosna hamborgara úr verslunum sínum. Það átti jafnt við þá sem vitað er að innihéldu hrossakjöt og hina sem ekki innihéldu slíkt kjöt.

Tim Smith, talsmaður Tesco, segir í samtali við Telagraph að það sé mjög alvarlegt mál að fundist hafi ólöglegt kjöt í vörum sem seldar séu í versluninni. Neytendur eigi rétt á að fá matvörur sem standist ströngustu gæðakröfur.

Það var matvælastofnun Írlands sem gerði rannsóknina, en vörurnar sem prófaðar voru eru einnig seldar í verslunum um allt Bretland.

DNA-rannsókn leiddi í ljós að um 37% hamborgaranna innihéldu hrossakjöt og 85% innihéldu einnig svínakjöt. Bæði hrossa- og svínakjöt fundust í 27 hamborgurum sem rannsakaðir voru. Þar er því um að ræða blöndu af hrossa-, svína- og nautakjöti. Tekið skal fram að níu af hverjum 10 hamborgurum sem innihéldu hrossakjöt reyndust vera með slíkt kjöt í litlu magni.

Rannsóknin náði einnig til fleiri unninna kjötvara. Niðurstaðan var að talsvert var um svínakjöt væri í vörum þar innihaldið átti að vera nautakjöt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert