Obama kynnir herta byssulöggjöf

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur kynnt yfirgripsmiklar tillögur um herta byssulöggjöf í Bandaríkjunum. Hann vill banna sölu á hríðskotavopnum og skothylkjum sem geta geymt margar byssukúlur.

Þá vill hann herða eftirlit með fólki sem vill kaupa skotvopn, þ.e. að bakgrunnur þeirra verði skoðaður ítarlega.

Ekki eru allir á eitt sáttir við tillögur forsetans, t.a.m. samtök skotvopnaeiganda í Bandaríkjunum (NRA) og aðrir sem vilja ekki takmarka rétt almenings til að kaupa skotvopn af öllum stærðum og gerðum.

Obama hefur undirritað 23 opinberar tilskipanir til framkvæmdaaðila sem þurfa ekki samþykki Bandaríkjaþings.

Í síðasta mánuði voru framin fjöldamorð í skóla í Connecticut í Bandaríkjunum þar sem börn og kennarar féllu fyrir hendi byssumanns, sem síðar tók eigið líf. Obama segir að það sé ekki lengur hægt að bíða eftir umbótum varðandi byssulöggjöfina.

Forsetinn segir að engin lög geti komið í veg fyrir voðaverk eða harmleiki í Bandaríkjunum. Hins vegar geti menn gert allt sem í þeirra valdi stendur til að reyna að draga úr ofbeldisverkum. Telji menn sig geta bjargað einu mannslífi þá séu þeir skuldbundnir til að þess að reyna að bjarga því.

Obama kynnti tillögurnar á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag. Við hlið hans stóðu börn sem skrifuðu honum bréf í kjölfar fjöldamorðana sem voru framin í grunnskóla í Newtown í desember. Alls létust 26 í árásinni.

Barack Obama Bandaríkjaforseti undirritaði 23 opinberar tilskipanir sem þurfa ekki …
Barack Obama Bandaríkjaforseti undirritaði 23 opinberar tilskipanir sem þurfa ekki samþykki Bandaríkjaþings. AFP
Obama ásamt Joe Biden, varaforseta Bandaríkjanna. Obama fól hópi embættismanna …
Obama ásamt Joe Biden, varaforseta Bandaríkjanna. Obama fól hópi embættismanna undir forystu Bidens að leggja fram tillögur um aðgerðir til að fyrirbyggja mannskæðar skotárásir. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert