Reiði vegna hrossakjöts í hamborgurum

29,1% kjötinnihalds hamborgaranna hjá Tesco, stærstu matvælakeðju Bretlands, reyndist vera …
29,1% kjötinnihalds hamborgaranna hjá Tesco, stærstu matvælakeðju Bretlands, reyndist vera hrossakjöt í stað nautakjöts. mbl.is/afp

David Cameron forsætisráðherra Bretlands sagði á þingi í dag, að uppgötvun hrossakjöts í stað nautakjöts í hamborgurum, sem seldir hefðu verið í verslunum stórra verslunarkeðja,  hefðu slegið sig afar þungt.

Þótt hrossakjöts sé neytt víða um heim þykja það forboðin matvæli í Bretlandi og Írlandi. „Landsmenn okkar munu hafa verið slegnir þegar þeir lásu í morgun, að þeir hafi verið að kaupa eitthvað sem í var hrossakjöt þegar þeir töldu sig vera kaupa nautakjötsborgara.

Þetta voru grafalvarleg tíðindi. Ég hef beðið matvælaeftirlitið (FSA) að hefja tafarlausa rannsókn á þessu. Stofnunin hefur kveðið á um að heilsu fólks hafi ekki verið stefnt í voða en þetta er með öllu algjörlega óásættanlegt framferði,“ sagði Cameron í umfjöllun um hamborgaramálið í breska þinginu í dag.

Matvælaöryggisstofnun Írlands (FSAI) skýrði frá því í gær, að athuganir hennar hefðu leitt í ljós að allt að 29% kjötinnihalds hamborgaranna hafi verið úr hrossum. Auk þess hefðu komið fram vísbendingar um að svínakjöti hefði einnig verið blandað í borgarana.

Um var að ræða frosna hamborgara sem seldir voru í búðum matvælakeðjanna Tesco og Iceland bæði í Bretlandi og Írlandi, og í búðum Lidl, Aldi og Dunner Stores í Írlandi. Tesco er stærsta matvælaverslunarkeðja Bretlands.

Hamborgararnir voru framleiddir í tveimur kjötvinnslustöðvum í Írlandi og einni í norðurhluta Englands.

Simon Coveney, landbúnaðar- og matvælaráðherra Írlands, segir að rót vandans virðist vera í kjöti sem flutt var inn til hamborgaragerðarinnar frá Hollandi.

Af 27 vörutegundum sem FSAI prófaði reyndist hrossakjöt í 10 og svínakjöt í 23. Í níu tilvikum af 10 þar sem hrossakjötið kom við sögu var það 0,3% eða minna af kjötinnihaldi borgarans. Í svonefndum „ Everyday Value Beef Burger“ frá Tesco reyndist hrossakjötsmagnið hins vegar 29,1%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka