Fangar misþyrmdu einum hópnauðgaranna

Sexmenningarnir sem ákærðir eru fyrir hópnauðgun og morð í fylgd …
Sexmenningarnir sem ákærðir eru fyrir hópnauðgun og morð í fylgd lögreglu þann 13. janúar. AFP

Einn sexmenninganna sem ákærðir eru fyrir að hafa tekið þátt í hópnauðgun sem leiddi til dauða 23 ára gamallar konur í Nýju-Delhi átti erfitt með að standa uppréttur í réttarsal í dag vegna áverka sem aðrir fangar veittu honum. Ákveðið hefur verið að málið fái flýtimeðferð í dómkerfinu.

Vinay Sharma er tvítugur leikfimikennari sem situr nú inni vegna aðildar að hópnauðguninni ásamt fimm öðrum mönnum, þar af einum sem er undir lögaldri. Lögmaður has, A.P. Singh, sagði fréttamönnum í dag að skjólstæðingur hans væri sárkvalinn.

„Vinay Sharma var pyntaður af öðrum föngum sem réðust á hann. Hann gat ekki staðið uppréttur í réttarsalnum vegna þess hvað hann finnur mikið til. Það er sorglegt að fangelsisyfirvöld geti ekki tryggt öryggi fanga,“ sagði Singh.

Lögmaður annars sakbornings, rútubílstjórans Ram Singh, lét hafa eftir sér í fjölmiðlum að hann ætlaði að fara fram á það að málið yrði fært frá höfuðborginni til héraðsdómstóls. „Ég veit að við munum ekki fá réttláta meðferð í Delí.“

Unga konan lést hinn 29. desember, 13 dögum eftir árásina, m.a. vegna alvarlegra innvortis áverka sem árásarmennirnir veittu henni með járnstöng. Ákveðið var í dag að málið fengi flýtimeðferð fyrir dómstólum og verður fyrsta vitnið leitt fyrir dóminn hinn 21. janúar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert