Mokhtar Belmokhtar, eineygi íslamistinn sem er forsprakki mannræningjanna í Alsír, er af mörgum talinn slægur „eyðimerkurrefur“ og hryðjuverkamaður en af öðrum aðeins ótíndur stigamaður.
Hann fæddist árið 1972 í hinni fornu eyðimerkurborg Ghardaia um 600 kílómetrum suður af Algeirsborg. Hann er þekktur fyrir að framleiða döðlur, teppi og aðra vefnaðarvöru.
Í fágætu viðtali sem hann gaf árið 2007 sagðist hann hafa farið ungur að heiman og slóst í hóp skæruliða sem börðust gegn innrás Sovétmanna í Afganistan. Hann gekk til liðs við þá árið 1991, þá aðeins 19 ára að aldri.
Í Afganistan segist hann hafa misst augað í sprengjuárás. Það var einnig þar sem hann komst fyrst í kynni við hryðjuverkasamtökin al-Qaeda. Hann gekk til liðs við samtökin og vann sig hratt upp í tign. En að því kom að honum var sparkað úr samtökunum.
Belmokhtar er nú kallaður Lawar (sá eineygði). Hann snéri til baka til Alsírs árið 1993, ári eftir að stjórnvöld ákváðu að hætta við kosningar sem Íslamski frelsisherinn hafði verið líklegur til að vinna. Í kjölfarið braust út borgarastyrjöld.
Hann gekk til liðs við Vopnaða íslamska hópinn, Armed Islamic Group (GIA), sem hóf að myrða óbreytta borgara í stórum stíl í baráttu sinni við stjórnvöld landsins. Stundum drap hópurinn íbúa heilu þorpanna.
Belmokhtar blómstraði við þessar aðstæður vegna þekkingar sinnar á „gráa svæðinu“, þar sem engin lög og engar reglur giltu. Svæðið nær yfir suðurhluta Alsírs, norðurhluta Malí og Níger. Vígamennirnir tryggðu yfirráð sín með því að mynda bandalög við þjóðarbrot á þessum svæðum og tryggðu þau endanlega með hjónaböndum.
Árið 1998 klofnaði GIA og til varð hópur sem kallast Salafist Group for Preaching and Combat (GSPC). Belmokhtar, sem þá var þekktur undir gælunafninu Sá ósnertanlegi meðal frönsku leyniþjónustunnar, yfirgaf GIA og gekk til liðs við GSPC.
Níu árum síðar fóru meðlimir GSPC formlega að aðhyllast hugmyndafræði Osama bin Laden um heilagt stríð. Hópurinn skipti um nafn og kallaðist þaðan í frá al-Qaeda íslömsku Norður-Afríku (AQIM).
Þessir íslamistar hafa spunnið þétt tengslanet og stofnað viðskiptabandalög á öllu Sahel-svæðinu, sunnan Sahara. Samtökin hafa haldið verndarhendi yfir fátækum stuðningsmönnum sínum og veitt þeim sem stunda mansal og verslun með eiturlyf skjól.
Íslamistarnir kunna vel við sig í hinni harðgerðu eyðimörk og hafa grætt milljónir dollara á mannránum, aðallega með því að ræna Evrópubúum.
Gíslatakan á gasvinnslusvæðinu í Alsír sem hófst í gær og endaði í gríðarlegu blóðbaði í dag, er því ekki fyrsta slíka aðgerð þessara eyðimerkurrefa.
Hópur sem kallar sig Signatories in Blood eða Undirritað með blóði hefur lýst ábyrgð á gíslatökunni en Belmokhtar er leiðtogi hópsins. Mannræningjarnir segjast vera að hefna fyrir niðurlægingu Alsírbúa sem opnuðu lofthelgina svo franskar orrustuþotur kæmust til hernaðaraðgerða í hinu stríðshrjáða nágrannaríki, Malí.
Þeir kröfðust þess að Frakkar hættu afskiptum sínum af stríðinu í Malí sem er fyrrverandi nýlenda Frakklands.
Þeir styðja því íslamistana sem hafa náð yfirráðum í norðurhluta Malí og komið þar á sharía-lögum sem m.a. meina konum að mennta sig. Hugmyndin var alltaf m.a. sú að með því að ráða yfir því svæði væri al-Qaeda í góðri stöðu að ná yfirráðum víðar í heimshlutanum.
Belmokhtar var reyndar allt þar til október einn helsti leiðtogi íslamistanna í norðurhluta Malí. Hann tapaði þeirri stöðu sinni hins vegar óvænt og talið er að það megi rekja til hans nýjasta gælunafns, Herra Marlboro. Nafnið vísar til umfangs mikilla viðskipta hans með smyglvarning, m.a. sígarettur, bíla og jafnvel eiturlyf. Þetta hefur ekki farið vel í ákveðinn hluta íslamistanna. Einn yfirmanna íslamistanna er sagður hafa sagt Belmokhtar hafa „villst af réttri leið“.
En hann er enn háttsettur innan AQIM og hét því í sumar að berjast gegn öllum þeim sem myndu reyna að skipta sér af stríðinu í Malí.
Í yfirlýsingu sem fréttastofa og áróðursstofa AQIM sagði frá í sumar var haft eftir Belmokhtar: „Við munum ekki sitja með hendur í skauti og við munum bregðast við af hörku og ákveðni.“
Belmokhtar stóð við þau orð sín.