Samþykkt að draga úr losun kvikasilfurs

Achim Steiner er framvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP).
Achim Steiner er framvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP). AFP

Yfir 140 lönd hafa lagt blessun sína yfir lagalega bindandi samning um kvikasilfur, en tilgangurinn er að draga úr magni kvikasilfurs í umhverfinu.

Sendifulltrúa ríkjanna hittust á fundi sem fram fór í Genf í Sviss. Þar voru aðgerðir til að draga úr notkun kvikasilfurs samþykktar. Þetta var fimmti fundurinn um málið, en viðræðurnar hófust í Stokkhólmi í Svíþjóð árið 2010.

Kveikjan að viðræðunum eru vandamál vegna kvikasilfurmengunar sem vart verður alls staðar á jörðinni og stafar af því að kvikasilfur flyst auðveldlega langar leiðir með loftstraumum. Alþjóðlegra aðgerða til að draga úr losun er þörf til þess að sporna við menguninni því aðgerðir innan einstakra ríkja hafa takmörkuð áhrif.

Kvikasilfur er hættulegt heilsu manna og umhverfi og hefur þann eiginleika að safnast fyrir í lífríkinu, einkanlega í sjávarlífverum þar sem styrkur þess getur farið yfir heilsuverndarmörk. Börn eru sérstaklega viðkvæm fyrir kvikasilfri og einnig þurfa konur á barneignaaldri að forðast neyslu á mat sem inniheldur mikið kvikasilfur vegna neikvæðra áhrifa sem það getur haft á þroska heila og taugakerfis fósturs í móðurkviði.

SÞ birtu nýverið gögn sem sýna fram á að kvikasilfursmengun hafi aukist í mörgum þróunarríkjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert