Reynt var í dag að myrða Ahmed Dogan, leiðtoga DPS, sem er flokkur Tyrkja í Búlgaríu. Dogan var að flytja ræðu á flokksþingi flokksins í Sofíu þegar maður stökk upp á sviðið og beindi byssu að honum og hleypti af. Byssan stóð á sér og Dogan slapp ómeiddur.
Ódæðismaðurinn er 25 ára gamall Búlgari. Hann var vopnaður byssu og tveimur hnífum. Hann reyndi aftur að skjóta af byssunni, en var yfirbugaður áður en hann fékk tækifæri til að skjóta aftur.
Dogan tilkynnti í dag að hann hefði ákveðið að segja af sér sem leiðtogi flokksins. Ákvörðun um þetta tengist ekki tilræðinu.
Hlé var gert á flokksþinginu í fjóra klukkutíma eftir tilræðið, en Dogan mætti aftur í ræðustól eftir að þinginu var framhaldið.