Byssueigendur og stuðningsmenn ákvæðis stjórnarskrár Bandaríkjanna um byssueign fóru í kröfugöngu í nokkrum borgum í Bandaríkjunum í dag til að leggja áherslu á að Barack Obama forseti tæki ekki undir kröfur um herta byssulöggjöf.
Um 600 manns voru í kröfugöngunni í Austin í Texas og héldu á lofti kröfuspjöldum til stuðnings því að almenningur mætti bera vopn. Í New York lét allstór hópur manna ekki kuldann hafa áhrif á sig og mæti á mótmælafund, en stjórnvöld í New York samþykktu fyrr í þessum mánuði að herða byssulöggjöfina.
Steven McLaughlin, sem situr á ríkisþinginu í New York, sagði á fundinum að nýja löggjöfin bæri vott um valdníðslu.
Í fréttaskýringarþættinum Newsnight á BBC var nýlega fjallað um afstöðu Bandaríkjamanna til byssueignar. Til að skilja hvers vegna byssueign í Bandaríkjunum er svona almenn verða menn að þekkja sögu Bandaríkjanna. Þegar landnemar í Bandaríkjunum sóttu til vesturs gerðu þeir það með byssu í annarri hendinni og stjórnarskrána í hinni hendinni.
Í þættinum var bent á að saga Bretlands væri allt önnur en Bandaríkjanna þegar kæmi að byssum. Í Bretlandi var einmitt lögð áhersla á að konungurinn og ríkið ættu að sjá um varnir og byssur ættu ekki að vera í höndum almennings. Bandaríkjamenn líta á byssur sem mikilvægur þáttur í frelsi þeirra gagnvart ríkisvaldinu. Margir líta svo á að ef ríkið taki byssurnar af einstaklingunum sé það um leið að ganga á rétt þeirra og taka sér vald sem það hafi ekki.
Svar margra Bandaríkjamanna við ofbeldisverkum eins og í grunnskólanum í Sandy Hook í Connecticut, þar sem 26 létust, þar af 20 börn á aldrinum 6-7 ára, er einmitt að landsmenn sjálfir verði að verjast ofbeldismönnum með því að vopnast. Þetta segja margir fullum fetum og aukin vopnasala í kjölfar þessa voðaverks sýnir að þetta sjónarmið nýtur víðtæks stuðnings.
Rödd þeirra sem upplifað hafa að missa ástvin eða hafa lifað af skotárásir, og hvetja til þess að lög um byssueign verði hert, er einnig sterk í Bandaríkjunum. Í þeim hópi er t.d. Gabrielle Giffords, fyrrverandi þingmaður frá Arizona. Hún lifði naumlega af þegar hún var skotin í höfuðið á kosningafundi í Tucson. Hún og fleiri segja að nú sé nóg komið af ofbeldið og því verði ekki svarað með því að þjóðin vopnist enn frekar.