Starfsfólk kanadíska sendiráðsins í Malí hefur verið kallað heim ásamt fjölskyldum þeirra. Stjórnvöld í Kanada hvetja nú alla kanadíska borgara í landinu til að yfirgefa það án tafar. Þetta kemur fram á þarlendum fréttamiðlum og AFP-fréttaveitan segir frá.
Kanadíska utanríkisráðuneytið sagði að einungis lágmarksstarfsfólk yrði eftir í höfuðborginni Bamako, en í landinu eiga vígbúnir íslamistar í vaxandi átökum við stjórnvöld og hafa þegar náð norðurhluta landsins á sitt vald.
Franski herinn kom til aðstoðar inn í landið ásamt herjum nágrannaríkja í síðustu viku og í kjölfarið réðust íslamistar inn í gasvinnslu í nágrannaríkinu Alsír og tóku þar 41 erlendan gísl ásamt fjölda alsírskra gísla og settu fram kröfur, meðal annars um að Frakkar hættu íhlutun sinni í Malí. Átökin við vígamennina í gasvinnslunni enduðu svo í gær með blóðbaði þar sem vígamenn og þeir gíslar sem eftir voru létust.
Kanadísk stjórnvöld hafa sent herflugvélar til aðstoðar Frökkum í Malí til að flytja þangað nauðsynleg hergögn, en hafa þó sagt að vélar þeirra kæmu hvergi að í beinum átökum.
Utanríkisráðuneytið varar kanadíska ríkisborgara við pólitískum óstöðugleika og vaxandi átökum í landinu, en ekki síður þeirri ógn sem fólki stendur þar af hryðjuverkamönnum, þjófnaði og mannráni í norðurhluta Malí.