Harry prins leysir frá skjóðunni

Harry Bretaprins, yngri sonur Karls ríkisarfa, fullyrðir að hann hafi drepið hermenn úr röðum talibana á meðan hann gegndi herþjónustu í Afganistan. Hann segist ekki hafa fengið sérmeðferð í hernum og segist hafa valdið fjölskyldu sinni vonbrigðum með óstýrilátri hegðun sinni.

Prinsinn, sem er 28 ára og hefur löngum vakið athygli fyrir ýmiskonar uppátæki, var í 20 vikur á átakasvæðum í Helmand-héraði í Afganistan. Herþjónustu hans þar lauk í dag og hann ræddi við blaða- og fréttamenn með því skilyrði að þeir birtu fréttirnar ekki fyrr en hann væri farinn úr landi.

Í viðtali við BBC sagðist Harry hafa átt þátt í að íslamskir uppreisnarmenn hefðu verið „teknir úr umferð“. 

„En margir hafa gert það. Allur herflokkurinn var hér. Allir hafa hleypt af skotum. Ef fólk reynir að gera vonda hluti við okkar menn, þá tökum við þá úr umferð,“ sagði prinsinn, sem er í þyrlusveit og gengur undir nafninu „Kapteinn Wales“ meðal félaga sinna í hernum. Spurður hvort hann fengi aðra meðferð en aðrir hermenn sagði hann svo ekki vera. „Ég er einn af þeim. Það er ekki komið öðruvísi fram við mig.“

Harry er fyrsti meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar til að vera á átakasvæðum síðan föðurbróðir hans Andrés prins, hertogi af Jórvík, tók þátt í Falklandseyjastríðinu.

Olli fjölskyldu sinni vonbrigðum

Hann svaraði spurningum um ýmislegt annað en herþjónustuna, þar á meðal þegar myndir af honum nöktum ásamt fleira fólki á hótelherbergi í Las Vegas voru birtar í fjölmiðlum um allan heim. Hann sagðist hafa valdið fjölskyldu sinni vonbrigðum. „Þetta er líklega sígilt dæmi um þegar ég var of mikill hermaður og of lítill prins. En þegar allt kemur til alls, þá var þetta á einkasvæði. Þarna hefði átt að vera næði til einkalífs.“

Hlakkar til að verða föðurbróðir

Harry sagðist hlakka til að verða föðurbróðir, en Vilhjálmur prins eldri bróðir hans verður faðir í sumar. Hann sagðist vona að mágkona hans, Katrín hertogaynja af Cambridge, fengi að njóta einkalífs síns á meðgöngunni. Hann sagði að þjónusta við fósturjörðina yrði alltaf númer eitt hjá þeim bræðrum.

Viðtalið við Harry prins verður sent út í kvöld á BBC News Channel klukkan 22:30.

Harry Bretaprins.
Harry Bretaprins. AFP
Harry Bretaprins í Afganistan.
Harry Bretaprins í Afganistan. AFP
Harry Bretaprins að störfum í Afganistan.
Harry Bretaprins að störfum í Afganistan. AFP
Harry Bretaprins.
Harry Bretaprins. AFP
Harry Bretaprins í Afganistan.
Harry Bretaprins í Afganistan. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert