Kosið verður í þjóðaratkvæði í Bretlandi eftir næstu þingkosningar þar í landi hvort breskir kjósendur vilji vera áfram í Evrópusambandinu eða vera áfram innan þess á breyttum forsendum. Þetta sagði David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, í ræðu sem hann flutti í dag í London um framtíðartengsl landsins við Evrópusambandið.
Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að stefnt yrði að slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu í lok árs 2017 að því gefnu að breski Íhaldsflokkurinn fengi til þess þingstyrk í næstu kosningum. Flokkurinn myndar núverandi ríkisstjórn með Frjálslyndum demókrötum sem hafa lagst gegn slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu.
Forsætisráðherrann hét því ennfremur að berjast fyrir áframhaldandi aðild Breta að Evrópusambandinu á grundvelli nýs samkomulags um tengsl Bretlands og sambandsins. Hann kallaði ennfremur eftir því að Evrópusambandinu væri breytt í laustengdara samband og varaði við því að ef ekki yrði komið til móts við kröfur Breta gætu þeir smám saman hrakist úr sambandinu.
Cameron hefur staðið frammi fyrir vaxandi kröfum um að slíkt þjóðaratkvæði færi fram og ekki síst úr röðum þingmanna Íhaldsflokksins. Þá hefur flokkurinn verið að tapa verulegu fylgi til Breska sjálfstæðisflokksins (UK Independence Party) sem hefur það á stefnuskrá sinni að Bretland segi skilið við Evrópusambandið.
Hugmyndunum illa tekið í Brussel
Tímann fram að hinu fyrirhugaða þjóðaratkvæði hyggst Cameron nota til þess að reyna að endursemja um veru Bretlands í Evrópusambandinu og endurheimta vald yfir ýmsum mikilvægum málaflokkum sem hefur verið framselt til stofnana sambandsins á liðnum árum og áratugum.
Hugmyndum Camerons hefur verið illa tekið bæði af forystumönnum innan Evrópusambandsins og leiðtogum breska Verkamannaflokksins og Frjálslyndra demókrata. Hefur forsætisráðherrann verið sakaður um að stefna efnahagsmálum Bretlands í hættu með því að skapa vafa um veru landsins í sambandinu.
Þá hafa forystumenn Evrópusambandsins ítrekað lýst því yfir að ekki sé í boði að endursemja um aðild Bretlands að sambandinu. Þannig lét forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, Herman van Rompuy, þau ummæli falla fyrir skemmstu að ef Bretar fengju að endurheimta vald frá sambandinu myndi það rakna upp enda færi þá önnur ríki fram á það sama.
Skoðanakannanir undanfarin ár hafa ítrekað sýnt mikinn stuðning á meðal Breta við þjóðaratkvæði um veruna í Evrópusambandinu og flestar kannanir hafa einnig sýnt fleiri hlynnta úrsögn úr því en áframhaldandi aðild að því. Bretar gengu í forvera Evrópusambandsins árið 1973 en þjóðaratkvæði var haldið 1975 um það hvort landið skyldi vera þar áfram og var það samþykkt.