Ungar konur og stúlkur bera hitann og þungann af efnahagskreppunni í heiminum. Þær eru líklegri en strákar að upplifa fátækt og stelpum er hættara við því en drengjum að vera kippt út úr skóla vegna kreppunnar.
Þetta eru meðal niðurstaðna í nýrrar skýrslu - Off the balance sheet: the impact of the economic crisis on girls and young women - frá hugveitunni ODI (Overseas Development Institute) og samtökunum Plan International. Í skýrslunni er ennfremur staðhæft að stúlkur búi við skertar lífslíkur vegna þess að fleiri stúlkubörn en piltbörn deyi áður en fimm ára aldri er náð. Fjallað er um skýrsluna í vefriti um þróunarmál.
Skýrsluhöfundarnir, Maria Stavropoulou og Nicola Jones, segja að margt leggist á eitt að búa stúlkum þrengri kost á undanförnum árum og nefna meðal annars langvarandi efnahagslægð, aukið kynjamisrétti og minni fjárráð.
Fram kemur í skýrslunni að stúlkur búa frekar við matarskort og vannæringu en strákar og algengt sé konur minnki eigin matarskammt til að tryggja að aðrir í fjölskyldunni hafi meira að borða. Kreppan hefur líka leitt til þess að konur vinna lengri vinnudag fyrir lægri laun, fleiri stúlkur séu teknar úr skóla til að vinna húsverk eða hættulega barnavinnu, jafnvel kynlífsstörf.
Heimurinn er að bregðast stúlkum og konum
„Það kemur ekki á óvart að þeir sem búa við lökustu kjörin þjáist meira en aðrir á tímum samdráttar en að sjá áhrifin á stúlkur í hækkaðri dánartíðni, minni lífslíkum, færri tækifærum og meiri áhættu borið saman við stráka, er sláandi,“ segir Nigel Champman framkvæmdastjóri Plan International í Bretlandi.
„Heimurinn er að bregðast stúlkum og konum. Þær þurfa markvissari stuðning í félagslegri vernd, atvinnusköpun og menntun ef okkur á að takast að snúa þessari þróun við og brúa þessa óásættanlegu og vaxandi gjá milli kynjanna,“segir hann.