Sex milljónir manna eru nú án atvinnu á Spáni, en atvinnuleysi mældist þar 26% á síðasta ársfjórðungi í fyrra. Aldrei hafa jafn margir verið þar án vinnu frá dauða Francos hershöfðingja árið 1975 þegar Spánn varð konungsbundið lýðveldi.
Atvinnuleysið á ársfjórðunginum á undan mældist 25,02% en síðan bættust 187.300 manns í hópinn. Á 8,33 milljónum heimila er ástandið nú þannig að enginn vinnufær einstaklingur var með vinnu.
Þessar tölur eru nokkuð hærri en verstu spár höfðu gert ráð fyrir. Búist hafði verið við því að atvinnuleysið yrði ekki meira en 24,6% í lok ársins 2012. Spánn er fjórða stærsta hagkerfið á evrusvæðinu. Þarlend stjórnvöld hafa kynnt ýmsar niðurskurðaraðgerðir og skattahækkanir til að draga úr skuldahalla ríkisins í því skyni að spara 150 milljarða evra fyrir lok næsta árs.