Rússneskt peningaþvætti í spænskum strandbæ

mbl.is

Spænska lögreglan handtók fjóra Rússa í dag, grunaða um að hafa staðið að stórfelldu peningaþvætti á meira en 56 milljónum evra frá rússneskum glæpasamtökum, jafnvirði á tíunda milljarð íslenskra króna.

Talið er að glæpasamtökin tengist Úkraínumanninum Semion Mogilevich sem er á lista bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, yfir tíu eftirlýstustu glæpamennina vegna stórfellds svindlmáls í Bandaríkjunum á tíunda áratugnum. FBI heitir 100.000 Bandaríkjadollara verðlaunum fyrir upplýsingar sem gætu leitt til handtöku hans.

Að auki er fólkið grunað um skattsvik og skjalafals. Einn hinna handteknu er rússneskur fasteignasali sem er grunaður um að vera höfuðpaurinn, en spænska lögreglan rannsakar nú hvernig hann fékk leyfi til að byggja stóra verslunarmiðstöð við ströndina fyrir nokkrum árum.

Fólkið var handtekið í strandbænum Lloret de Mar, sem er skammt frá Barselóna. Í bænum, sem er vinsæll ferðamannabær, er fjölmenn nýlenda Rússa. Féð er talið hafa komið til Spánar frá Rússlandi í gegnum þriðja landið og í einhverjum tilvikum í gegnum skattaskjól með ýmsum sýndarviðskiptum á borð við fasteignakaup og fjárfestingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert